Selfoss vann meistaraslaginn í Krikanum

Birgir Már Birgisson í baráttunni við Hergeir Grímsson í Kaplakrika …
Birgir Már Birgisson í baráttunni við Hergeir Grímsson í Kaplakrika í kvöld. mbl.is//Árni Sæberg

Íslandsmeistarar Selfyssinga gerðu góða ferð í Hafnarfjörð í kvöld þar sem þeir lögðu bikarmeistara FH 32:30 í 1. umferð Olís-deildar karla í handknattleik.

Eins og jafnan áður þegar þessi lið eigast við var boðið upp á spennuleik en Selfyssingar reyndust sterkari á lokakaflanum og fögnuðu vel og innilega í leikslok.

Fyrsti stundarfjórðungurinn í fyrri hálfleik var í járnum en Selfyssingar tóku þá frumkvæðið, náðu mest fimm marka forystu og voru fjórum mörkum yfir í hálfleik 17:13. FH-ingum gekk illa að eiga við sterka vörn Íslandsmeistaranna og Einar Baldvin Baldvinsson markvörður þeirra varði vel og ekki síður Sölvi Ólafsson sem kom inná og varði öll þrjú vítaköst FH í fyrri hálfleik. Í sókninni var Haukur Þrastarson erfiður en hann skoraði sex af mörkum Selfyssinga í fyrri hálfleik.

Selfyssingar héldu frumkvæðinu fyrsta korterið í seinni hálfleik en þá vöknuðu FH-ingar til lífsins. Þeir skoruðu fimm mörk í röð og breyttu stöðunni úr 20:25 í 25:25. Ásbjörn Friðriksson fór mikinn á þessum kafla og þýski markvörðurinn Phil Döhler átti góða endurkomu en hann fann sig ekki í seinni hálfleik.

En Selfyssingar létu þetta ekki slá sig út af laginu. Með Hauk Þrastarson og línumanninn Guðna Ingvarsson áttu þeir góðan endasprett og unnu að lokum verðskuldaðan sigur.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson og Ásbjörn Friðriksson voru bestu menn FH-inga en vörn þeirra var slök og marvarslan ekki góð. Einar Rafn Eiðsson, sem skoraði 14 mörk í viðureign liðanna í Meistarakeppni HSÍ í síðustu viku, fann sig engan veginn og skoraði aðeins eitt mark.

Haukur Þrastarson var frábær og þessi efnilegasti leikmaður okkar Íslendinga lék FH-ingana grátt. Hann skoraði hvert glæsimarkið á fætur öðrum og mataði Guðna Ingvarsson á línunni grimmt en Guðni nýtti tækifærið vel þegar Atli Ævar Ingólfsson var rekinn af velli í fyrri hálfleik og raðaði inn mörkunum. Þá átti Ein Baldvin Baldvinsson fínan leik á milli stanganna en hann kom til Selfyssinga frá Val eftir tímabilið. Sölvi Ólafsson skilaði líka sínu og varði til að mynda þrjú vítaköst.

FH 30:32 Selfoss opna loka
60. mín. Bjarni Ófeigur Valdimarsson (FH) á skot í stöng
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert