ÍR vann óvæntan 35:28-sigur á Íslandsmeisturum Selfoss á útivelli í 2. umferð Olísdeildar karla í handbolta í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld. ÍR er með fjögur stig eftir tvo leiki og Selfoss tvö.
Ríkjandi Íslandsmeistarar Selfoss fóru vel af stað í deildinni og unnu FH í fyrsta leik á meðan ÍR hafði betur gegn nýliðum Fjölnis. Selfyssingar náðu ekki að fylgja þessari góðu byrjun eftir og voru daufir bæði í vörn og sókn og létu baráttuglaða ÍR-inga sigla yfir sig.
ÍR leiddi 15:13 í leikhléi en gestirnir juku forskotið í upphafi seinni hálfleiks og litu aldrei til baka eftir það. Björgvin Hólmgeirsson og Sveinn Andri Sveinsson voru öflugir í sóknarleik ÍR, Björgvin skoraði 8/1 mörk og Sveinn Andri 7. Sigurður Ingberg Ólafsson fór á kostum í marki ÍR og varði 15 skot.
Hjá Selfyssingum var Haukur Þrastarson markahæstur með 7 mörk og Einar Baldvin Baldvinsson varði 13 skot í marki Selfoss.