Sunna Jónsdóttir, leikmaður ÍBV í handknattleik, viðurkennir að tímabilið í Vestmannaeyjum geti orðið krefjandi en ákveðið uppbyggingarstarf á sér nú stað hjá kvennaliði félagsins.
ÍBV endaði í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og féll úr leik í undanúrslitum Íslandsmótsins eftir tap gegn Fram. Eyjakonum er spáð fjórða sætinu í ár af fyrirliðum og þjálfurum deildarinnar.
„Stemningin í Vestmannaeyjum er alltaf mjög góð og það er mikill handboltaáhugi í Eyjum. Umgjörðin hérna er algjörlega frábær, bæði karla- og kvennamegin og tímabilið leggst ágætlega í mig. Við erum vissulega með alveg nýtt lið í höndunum og það er mikið verk að vinna en ég kýs að horfa á það með jákvæðum augum. Þetta verður vissulega krefjandi en jafnframt spennandi líka að fá að taka þátt í þessu verkefni.
Eins og staðan er núna er erfitt segja til um það hvernig deildin mun spilast. Við förum að sjálfsögðu í hvern einasta leik til þess að vinna og við setjum stefnuna hátt. Eins og staðan er núna eru Fram og Valur með langbestu liðin og það verður hart barist um sæti þrjú til átta. Það geta í raun öll liðin, fyrir utan kannski toppliðin tvö, unnið hvert annað og við setjum stefnuna á úrslitakeppnina í Eyjum.“
Morgunblaðið tekur púlsinn á liðunum í Olís-deild kvenna og í dag er fjallað um lið ÍBV og Stjörnuna