Íslendingaliðið SönderjyskE er komið upp í annað sæti dönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta eftir 29:23-sigur á Nordsjælland á útivelli í dag.
Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði tvö mörk úr þremur skotum og Sveinn Jóhannsson skoraði eitt mark úr tveimur skotum fyrir SönderjyskE.
Liðið hefur unnið þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum í deildinni til þessa og er stigi á eftir Álaborg sem er í toppsætinu. Arnar er á sínu öðru ári með liðinu og Sveinn á sínu fyrsta.
Elvar Örn Jónsson skoraði eitt mark fyrir Skjern sem hafði betur gegn Fredericia á heimavelli, 29:25. Björgvin Páll Gústavsson var á bekknum hjá Skjern, en Patrekur Jóhannesson þjálfar liðið. Skjern er í fjórða sæti með fimm stig.
Árni Bragi Eyjólfsson komst ekki á blað hjá Kolding sem gerði 23:23-jafntefli við Lemvig. Ólafur Gústafsson lék ekki með Kolding sem er í 13. og næstneðsta sæti með eitt stig.