Karen Helga Díönudóttir, leikmaður Hauka í handknattleik, vonast til þess að gott undirbúningstímabil liðsins muni skila sér inn í tímabilið.
Haukar hafa æft afar vel í sumar, þar með talin Karen Helga, en liðið endaði í fjórða sæti úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og féll úr leik í undanúrslitum Íslandsmótsins eftir tap gegn Val. Haukum er spáð fimmta sæti af fyrirliðum og þjálfurum deildarinnar.
„Við erum gríðlega spenntar fyrir komandi tímabili og þetta leggst mjög vel í okkur. Árni Stefán þjálfari hefur komið mjög vel inn í þetta og sömu sögu er að segja um þær Hörpu og Díönu aðstoðarþjálfara. Við höfum unnið mjög vel saman í allt sumar og lagt gríðarlega mikið á okkur á þessu undirbúningstímabili. Ég hef trú á því að það muni skila okkur góðum árangri þegar líða fer á tímabilið.
Við fórum ekkert sérstaklega vel af stað gegn Stjörnunni en að sama skapi snýst þetta ekki um að toppa í september. Við erum á réttri leið og munum halda áfram að vinna í okkar málum. Það má alveg spá okkur fimmta sæti deildarinnar en við ætlum okkur ekki að vera þar og markmiðið er að fara hærra en það.“
Morgunblaðið heldur áfram að fjalla um liðin í Olís-deild kvenna í handknattleik og í dag er komið að liði Haukanna