Arnór Freyr Stefánsson, markvörður Aftureldingar, var ekki sáttur við eftirlitsmann HSÍ þegar Afturelding tapaði fyrir FH 25:24 í 4. umferð Olís-deildar karla í handknattleik í kvöld.
Í stöðunni 20:20 og rúmar sjö mínútur voru til leiksloka varð Gestur Ólafur Ingvarsson fyrir meiðslum á hné þegar Mosfellingar voru í sókn. Leikurinn var stöðvaður og þrír starfsmenn Aftureldingar hlupu inná til að hlúa að Gesti en er ekki leyfilegt að svo margir fari inn á völlinn. Gestur var borinn af velli en Afturelding missti mann af velli vegna þessa atviks og það reyndist liðinu dýrt. FH skoraði tvö mörk í röð með því að kasta boltanum í autt markið og lagði þar með grunninn að sigri sínum.
„Það var ömurlegt að fá ekki eitthvað út úr þessum leik en ég vil meina að vendipunktur leiksins hafi verið þegar við misstum mann út af. Það var illa slasaður leikmaður liggjandi í gólfinu og við fengum tvær mínútur þar sem of margir komu inn á til að hlúa að Gesti. Þarna hefði Gísli eftirlitsmaður átt að sýna skilning á þessu og leyfa okkur að hlúa að illa slösuðum manni sem er nýkominn til baka eftir krossbandsslit. Hann er kannski að gera sitt besta og fylgja einhverjum reglum en þarna finnst mér að hægt hafi verið að beygja reglurnar,“ sagði Arnór Freyr við mbl.is en hann átti flottan leik á milli stanganna.
„En við gerðum fullt af mistökum sjálfir. Við mættum góðu FH-liði á þeirra sterka heimavelli og á móti liði sem er spáð titlinum. Ég er stoltur af mínu liði þótt við höfum tapað. Við gáfumst aldrei upp og áttum möguleika á að ná í það minnsta einu stigi,“ sagði Arnór Freyr, sem varði 14 skot, þar af tvö vítaköst og skoraði eitt mark.