Sturla Ásgeirsson er enn í fullu fjöri í handboltanum, þrátt fyrir að vera orðinn 39 ára gamall. Sturla skoraði átta mörk í 32:27-sigri ÍR á Stjörnunni á heimavelli í Olísdeildinni í kvöld. Staðan í hálfleik var 17:16, en ÍR-ingar voru sterkari í seinni hálfleik.
„Við náðum stoppum í vörninni hjá okkur, unnum nokkra bolta og náðum nokkrum hraðaupphlaupum. Við fengum nokkra varða bolta og þeir fóru að gera mistök. Þá náum við yfirhöndinni og sjö marka forystu sem við héldum nánast út leikinn,“ sagði Sturla við mbl.is eftir leikinn.
Fyrri hálfleikurinn var gríðarlega fjörlegur og bæði lið skoruðu nánast í hverri einustu sókn.
„Þetta var mjög gaman en þetta tók á. Maður er kannski ekki á léttasta skeiðinu, en þetta var frábært. Svona á handbolti að vera; líf og fjör og fullt af mörkum. Auðvitað var hvorki vörn né markvarsla til fyrirmyndar í fyrri hálfleik, í seinni hálfleik náðum við upp betri vörn.“
ÍR hefur komið á óvart í vetur og unnið fimm fyrstu leiki sína. Sturla viðurkennir að hann sá það ekki endilega fyrir.
„Nei, ég gerði það kannski ekki. Auðvitað fer maður í alla leiki til að vinna þá og það er frábært að vera búinn að vinna þessa leiki. Þetta er rétt að byrja og við verðum að halda áfram á fullu, spila okkar leik og verða betri,“ sagði Sturla.