Selfoss hafði betur gegn KA, 36:34, er liðin mættust í Olísdeild karla í handbolta á Selfossi í kvöld. Með sigrinum fór Selfoss upp í níu stig og upp í fjórða sæti deildarinnar.
Leikurinn var gríðarlega kaflaskiptur en stórskemmtilegur. Hraðinn var mikill og mikið skorað en um leið gerðu liðin aragrúa mistaka - og KA menn líklega fleiri, auk þess sem þeir eyddu talsvert meiri tíma í skammarkróknum.
Selfoss byrjaði betur í leiknum og náði þriggja marka forskoti en KA átti frábært áhlaup þegar tuttugu mínútur voru liðnar og staðan var 19:19 í hálfleik.
Leikurinn var í járnum framan af seinni hálfleik en um hann miðjan tóku Selfyssingar af skarið og náðu fimm marka forskoti. En gestirnir voru ekki hættir, þeir tóku leikhlé og löguðu varnarleikinn og náðu að minnka muninn í eitt mark á lokamínútunni. Nær komust þeir ekki og Íslandsmeistararnir fögnuðu sigri.
Hergeir Grímsson var markahæstur Selfyssinga með 11/3 mörk. Hann var frábær í vörn og sókn ásamt þeim Hauki Þrastarsyni og Árna Steini Steinþórssyni sem báðir skoruðu 9 mörk. Sölvi Ólafsson varði 11/1 skot í marki Selfoss.
Hjá KA var Patrekur Stefánsson markahæstur með 8 mörk, Tarik Kasumovic skoraði 7 og Dagur Gautason 7/2. Svavar Ingi Sigmundsson varði 11 skot í markinu.