„Sveinn fékk að þreyta hér frumraun í mjög erfiðu og krefjandi hlutverki í miðri vörninni, og leysti það frábærlega. Það verður að segjast eins og er,“ segir Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari í handbolta um magnaða frammistöðu hins unga Sveins Jóhannssonar gegn Svíum í kvöld.
Segja má að Guðmundur hafi hent hinum tvítuga Sveini út í djúpu laugina en hann stóð vaktina ásamt hinum 22 ára Ými Erni Gíslasyni í miðri, stórgóðri vörn Íslands í 27:26-sigri á Svíþjóð. Sveinn, sem fór frá ÍR til danska úrvalsdeildarfélagsins SönderjyskE í sumar, hefur verið í sigti Guðmundar um nokkurn tíma:
„Ég verð að játa að ég átti nú von á að hann fengi fleiri tækifæri síðasta vetur með ÍR, þau voru fá, og því gat ég ekki séð hann mikið með ÍR. En ég sá hann með unglingalandsliðinu í fyrrasumar og hann stóð sig mjög vel og vakti athygli mína. Við höfum tekið hann inn í B-landsliðið og unnum með honum þar, og þá sá ég ákveðna eiginleika sem ég hreifst af. Þess vegna er hann hér. Svo hefur hann unnið vel í sínum málum og staðið sig vel í Danmörku,“ segir Guðmundur.
Á hinum enda skalans er svo reynsluboltinn Kári Kristján Kristjánsson en þessi 34 ára gamli línumaður sýndi að hann á erindi á annað stórmót:
„Kári átti frábæran leik, það verður ekki tekið af honum. Hann skoraði fjögur mörk, fiskaði tvö víti og lét mikið til sín taka. Hann kom með ákveðna vídd inn í okkar leik, sem er mjög jákvætt. Við vildum skoða Kára, þó að við teldum okkur vita hvar við hefðum hann. Þetta kallar á að við skiptum tveimur mönnum út af í vörn og sókn, sem er ekki einfalt, en það gekk tiltölulega vel í þessum leik,“ segir Guðmundur. Hann bendir á að hægt sé að hrósa mörgum leikmönnum eftir sigurinn á Svíum:
„Þessi leikur var mjög vel útfærður af okkar hálfu, bæði varnarlega og sóknarlega. Það var rétt á fyrstu mínútunum sem mér fannst við ekki í takti við leikinn einhvern veginn, sérstaklega sóknarlega, en svo löguðum við það og unnum okkur inn í leikinn. Varnarleikurinn var algjörlega frábær, hrikalega hreyfanlegur með nýja menn inni sem hafa ekki spilað stór hlutverk í varnarleiknum okkar áður. Sveinn Jóhanns var frábær, Viggó líka, og í heildina var vörnin bara mjög góð og hélt út allan leikinn. Það er mjög vel gert að fá bara á sig 26 mörk hér á útivelli. Markvarslan var líka fín á köflum, svo það var verulega ánægjulegt að sjá þetta.“
„Fyrir utan þessar mínútur í byrjun þá var sóknarleikurinn mjög góður. Við spiluðum ekkert mörg leikkerfi, spiluðum þau sem við töldum virka og fengum eiginlega alltaf færi. Svo komum við inn með nýja hluti í seinni hálfleik sem gerðu mjög mikið fyrir okkur, ákveðnar innleysingar sem voru bara frábær viðbót. Við spiluðum klókt, opnuðum vörnina víða og unnum vel úr erfiðum stöðum, oft einum færri. Þá þarf að spila vel bæði í vörn og sókn, og varnarleikurinn var mjög góður þegar við vorum manni færri. Þá unnum við 2-3 bolta sem er mjög sterkt. Þetta var mjög jákvætt allt saman, og að mörgu leyti eitthvað sem maður átti ekki alveg von á gegn einu besta landsliði heims á þeirra heimavelli,“ segir Guðmundur. Ísland mætir Svíþjóð öðru sinni á sunnudag, í undirbúningi sínum fyrir Evrópumótið í janúar en þar leikur Ísland einmitt í Malmö:
„Við fórum hingað til þess að breikka hópinn og skoða leikmenn, og munum spila á öllum leikmönnunum í þessari ferð. Það fá því aðrir leikmenn stærra hlutverk á sunnudaginn. Við erum með 17 leikmenn svo það geta ekki allir tekið þátt í báðum leikjum, en markmiðið er að gefa mönnum tækifæri til að sýna sig og sanna.“