Línumaðurinn Atli Ævar Ingólfsson tryggði Íslandsmeisturum Selfyssinga sigur gegn Stjörnunni 31:30 þegar liðin áttust við í lokaleik 8. umferðar í Olís-deild karla í handknattleik á Selfossi í kvöld.
Leikurinn var gríðarlega spennandi. Andri Þór Helgason jafnaði metin í 30:30 þegar 20 sekúndur voru til leiksloka en á lokasekúndunni skoraði Atli Ævar sigurmarkið af línunni. Með sigrinum komst Selfoss upp í fjórða sæti deildarinnar með 11 stig en Stjarnan er í fallsæti, er í næst neðsta sætinu með 4 stig.
Selfoss var 14:13 yfir eftir fyrri hálfleikinn og í síðari hálfleik skiptust liðin á að hafa forystu þar sem úrslitin réðust á dramatískan hátt.
Atli Ævar og Haukur Þrastarson skoruðu 8 mörk hvor fyrir Selfoss og Guðjón Baldur Ómarsson skoraði 6.
Leó Snær Pétursson var markahæstur í liði Stjörnunnar með 10 mörk og Tandri Már Konráðsson kom næstur með 6.