Eins og fram kom á mbl.is fyrr í kvöld varð landsliðsmaðurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikmaður Kiel, fyrir meiðslum í viðureign Rhein-Neckar Löwen og Kiel í þýsku Bundesligunni í handknattleik.
Gísli Þorgeir var studdur af leikvelli á 53. mínútu eftir að hafa lent illa í gólfinu. Hann var fluttur á sjúkrahús og við skoðun þar kom í ljós að hann fór úr liði í vinstri öxlinni. Læknar náðu að koma öxlinni aftur í liðinn en Gísli fer í myndatöku á morgun og þá ætti að skýrast hvort liðbönd í öxlinni hafi skaddast.
Ljóst er Gísli verður frá í einhvern tíma en hversu lengi er ekki vitað og hvort hann verði búinn að ná sér í tæka tíð áður en Evrópumótið hefst í janúar.
Gísli átti góða innkomu með liði Kiel áður en hann varð fyrir meiðslunum en Löwen fór með sigur af hólmi 26:25 eftir að Kiel hafði náð sjö marka forskoti í fyrri hálfleik.