Mikilvægur sigur hjá KA/Þór

Martina Corkovic úr KA/Þór reynir skot að marki.
Martina Corkovic úr KA/Þór reynir skot að marki. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA/Þór hafði betur gegn Stjörnunni 23:22 í fyrsta leiknum í 9. umferð úrvalsdeildar kvenna í handknattleik, Olísdeildarinnar, í KA-heimilinu á Akureyri í kvöld. 

Akureyringar færðust nær Garðbæingum í stigatöflunni með sigrinum. Stjarnan er í þriðja sætinu eftir átta umferðir með 11 stig en KA/Þór er í fjórða sæti með 10 stig, jafnmörg og HK er í fimmta sætinu með 8 stig.

Þór/KA byrjaði leikinn mun betur og leiddi hann langt fram í fyrri hálfleik. Klaufalegir brottrekstrar og góð vörn hjá Stjörnukonum breyttu taktinum og Stjarnan komst yfir á tímabili. Heimakonur reyndu að berja í bresti sína og reyndust aðeins sprækari á lokaspretti fyrri hálfleiks. Staðan í hálfleik var 12:11 fyrir KA/Þór og mikil spenna framundan.             

Markmenn liðanna voru sprækir allan fyrri hálfleikinn. Matea Lonac í marki KA/Þórs varði tíu skot en Klaudia Powaga varði átta í Stjörnumarkinu. Það sem annars einkenndi hálfleikinn var aragrúi tapaðra bolta hjá báðum liðum. Varnirnar voru þéttar og sókarleikurinn oft á tíðum afar vandræðalegur.

Seinni hálfleikurinn var spennutryllir af bestu gerð. Liðin voru jöfn nánast allan tímann, annað þó stundum marki yfir. Lokasóknirnar voru svakalegar. Hulda Bryndís Tryggvadóttir kom KA/Þór yfir þegar tæpar tvær mínútur lifðu en Rakel Dögg Bragadóttir svaraði um hæl. Þór/KA fór í fremur langa og vandræðalega sókn og tók svo leikhlé til að skipuleggja gott kerfi. Það fór hins vegar allt í vaskinn og leiktöf var dæmd þegar tuttugu sekúndur lifði. Stjarnan rauk upp völlinn og reyndi línusendingu sem misheppnaðist. Boltinn skoppaði inn í teig þar sem markvörður KA/Þórs, Matea Lonac,  hirti hann. Matea grýtti svo boltanum yfir allan völlinn og hárfínt yfir Klaudiu Pogawa sem stóð full framarlega í marki Stjörnunnar. Boltinn endaði í netinu og síðan gall lokaflautan. Tæpara mátti þetta ekki vera og heimakonur í KA/Þór gátu stigið trylltan dans í lokin.

Þrátt fyrir fjölmörg mistök leikmanna þá voru nokkrir sem stóðu sig virkilega vel, þá helst þeir sem komu inn af bekkjum liðanna. Anna Þyrí Halldórsdóttir var langbesti útileikmaður KA/Þórs og dró liðið áfram síðasta spölinn. Stjörnukonur sendu líka menn inn af bekknum. Þær Karen Tinna Demian, Sigrún Ása Ásgrímsdóttir og Sólveig Lára Kjærnested stóðu sig allar vel.

Matea Lonac var svakaleg í marki KA/Þórs. Hún varði átján skot áður en hún skoraði sigurmarkið.

KA/Þór 23:22 Stjarnan opna loka
60. mín. KA/Þór tekur leikhlé Það er 59:16 á klukkunni. Hvort lið mun fá eina sókn í það minnsta.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert