Íslandsmeistarar Selfoss unnu sannfærandi níu marka sigur á Fjölni í Dalhúsi í Grafarvogi í Olísdeild karla í handknattleik í kvöld, 35:26.
Leikurinn var í járnum fyrsta stundarfjórðunginn en svo fóru meistararnir að færa sig upp á skaftið og voru þeir yfir í hálfleik, 18:12. Selfyssingar voru svo mikið sterkari eftir hlé og unnu að lokum sannfærandi sigur en Hergeir Grímsson var markahæstur með tíu mörk. Guðni Ingvarsson og Haukur Þrastarson skoruðu báðir fimm mörk fyrir gestina en í liði Fjölnis var Breki Dagsson markahæstur með sjö mörk.
Selfoss fer upp í þriðja sætið með sigrinum og er nú með 15 stig, þremur stigum á eftir toppliði Hauka sem á þar að auki leik til góða. Fjölnir er áfram í næstneðsta sæti með fimm stig.