Fyrstu þjálfaraskipti keppnistímabilsins í Olísdeild karla í handknattleik áttu sér stað í gær þegar Halldór Jóhann Sigfússon var ráðinn þjálfari Fram í stað Guðmundar Helga Pálssonar sem mátti axla sín skinn í fyrrakvöld eftir þriggja ára veru við stjórnvölinn. Guðmundur Helgi sagði í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í gær að uppsögnin hefði komið sér á óvart. Hann var við þjálfun Framliðsins sumarið 2016 og skrifaði undir fimm ára samning við Fram í ársbyrjun í fyrra. Svo langir samningar við þjálfara eru fátíðir hér á landi. Þá var hugur í forráðamönnum Fram.
Þolinmæði þeirra var hinsvegar á þrotum ríflega 22 mánuðum síðar eftir brösótt gengi Framliðsins á keppnistímabilinu. Fram tapaði fyrstu fjórum leikjum sínum í deildinni í haust. Nú þegar keppni í Olísdeildinni er hálfnuð situr Fram í níunda sæti deildarinnar með sjö stig eftir 11 leiki. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins reyndist tap Fram fyrir Fjölni í Dalhúsum, 27:25, í 8-liða úrslitum Coca Cola-bikarsins í síðustu viku vera kornið sem fyllti mælinn. Menn óttuðustu að ef ekki yrði breyting á væri Fram-liðið, fjarri því að losa sig úr fallbaráttu.
Sjá fréttaskýringuna í heild á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.