Pirraður leikmaður Dana kýldi í borð

Magnus Saugstrup leitar leiða fram hjá Alexander Peterssyni í kvöld.
Magnus Saugstrup leitar leiða fram hjá Alexander Peterssyni í kvöld. AFP

Nikolaj Jacobsen, landsliðsþjálfari Dana í handbolta, hrósaði tveimur Íslendingum sérstaklega eftir 31:30-sigur Íslands á heims- og ólympíumeistaraliði Danmerkur í fyrsta leik liðanna á EM í Malmö í kvöld. 

Hann viðurkennir að danska vörnin hafi ráðið illa við þá Aron Pálmarsson og Janus Daða Smárason. Aron skoraði tíu mörk og lagði upp ófá til viðbótar á liðsfélaga sína á meðan Janus stýrði sóknarleik Íslands með miklum ágætum þegar hann fékk tækifæri til. 

„Við verðum að verjast betur og okkur gekk illa að ráða við Aron og Janus. Við vorum svo óheppnir í lokin. Ég skil ekki af hverju þeir flautuðu í lokin þegar við vorum að komast í færi,“ sagði Jacobsen við TV 2. 

Michael Damgaard, leikmaður liðsins, var öllu pirraðri í leikslok. „Við erum ósáttir. Við fengum tækifæri til að komast þremur mörkum yfir á tímabili og svo einu marki yfir undir lokin, en svo skora þeir í tómt markið. Ég er rosalega þreyttur á þessu. Við verðum að koma til bara og gera það fjandans vel,“ sagði hann, áður en hann kýldi pirraður í borð og baðst svo afsökunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert