Þegar valdahlutföllin breyttust

Mats Olsson, Per Carlén og Magnus Wislander með gullverðlaunin 1990.
Mats Olsson, Per Carlén og Magnus Wislander með gullverðlaunin 1990.

Segja má að valdahlutföllin í handboltanum hjá körlunum hafi breyst fyrir þrjátíu árum síðan þegar Svíþjóð og Sovétríkin mættust í eftirminnilegum úrslitaleik á heimsmeistaramótinu í Tékkóslóvakíu árið 1990. Svíar náðu þá að verða heimsmeistarar í fyrsta skipti síðan 1958 en sá kjarni leikmanna átti eftir að vinna fleiri stórmót. 

Þegar kom að úrslitaleiknum á HM 1990 var talið nánast óhugsandi að lið Sovétríkjanna myndi tapa. Stærsta hindrunin á leiðinni í úrslitaleikinn var talin vera Júgóslavía með sigursæla kappa innanborðs eins og Mile Isakovic og Veselin Vujovic. Þeir voru hins vegar farnir að eldast og Sovétmenn unnu 24:22 þegar þjóðirnar mættust í milliriðli. Þar mætti Sovétríkin einnig Íslandi og vann sannfærandi sigur 27:19. Geir Sveinsson var markahæstur í íslenska liðinu með 6 mörk og Alfreð Gíslason skoraði 5. 

Sovétmenn höfðu ekki bara við óviðráðanlegir á HM 1990. Aðalatriðið var að liðið hafði varla tapað leik í tvö ár. Þegar kom að úrslitaleiknum í Prag 10. mars 1990 þá hafði lið Sovétríkjanna varla tapað síðan það mátti játa sig sigrað gegn Íslandi í Laugardalshöllinni á Flugleiðamótinu í lok ágúst 1988. Ísland vann 23:21 fyrir framan þrjú þúsund áhorfendur og skoraði Páll Ólafsson síðasta mark leiksins. Þá höfðu Sovétmenn raunar ekki tapað leik í tíu mánuði. 

Tutsjkin í úrslitaleiknum 1990 en hann skoraði 11 mörk.
Tutsjkin í úrslitaleiknum 1990 en hann skoraði 11 mörk. Skjáskot

Sovétmenn höfðu byggt upp nýtt lið eftir HM 1986 sem varð nánast ósigrandi. Sovétríkin höfnuðu 10. sæti á HM í Sviss árið 1986 og það var meira en menn gátu sætt sig við. Nýtt lið var sett saman enda afar hæfileikaríkir leikmenn sem voru að koma upp. Markvörðurinn Andrei Lavrov er einn sá besti sem fram hefur komið, Aleksandr Tutsjkin gat raðað inn mörkum og Andrei Xepkin átti magnaðan feril með Barcelona síðar meir. Allt gekk að óskum á Ólympíuleikunum í S-Kóreu árið 1988 þar sem Sovétmenn urðu ólympíumeistarar og unnu alla sex leiki sína. Þegar að úrslitaleiknum árið 1990 kom höfðu þeir því unnið tólf leiki í röð á stórmóti. 

Svíar veðjuðu einnig á sterka kynslóð

Sovétmenn voru ekki þeir einu sem voru að smíða lið úr hæfileikaríkum mönnum af sömu kynslóð. Svíar höfðu áttað sig á að þeir voru með mannskap í höndunum sem gæti blandað sér í baráttuna við bestu landsliðin. Þeir fengu tækifæri og Svíum gekk ágætlega á HM 1986 og ÓL 1988 þar sem liðið hafnaði í 5. sæti. Svíar fóru á HM 1990 með hófstilltar væntingar þar sem markið var fyrst sett á að tryggja liðinu keppnisrétt á Ólympíuleikunum 1992. Ekki þurfti liðið að hafa áhyggjur af keppnisrétti á HM 1993 því mótið var haldið í Svíþjóð. Þar skyldi liðið toppa. 

Svíar unnu frambærileg lið á leið sinni í úrslitaleikinn eins og Frakkland, Ungverjaland, Tékkland og Suður-Kóreu. Þeir töpuðu síðasta leiknum í milliriðli gegn Rúmeníu en hann hafði ekkert að segja fyrir Svía sem voru öruggir um sæti í úrslitaleiknum. Flestir töldu hinn milliriðilinn vera mun sterkari en svo gott sem enginn bjóst við öðru en að ólympíumeistararnir myndi vinna Svíana í úrslitaleiknum. Jafnvel yrði um stórsigur að ræða ef Svíar myndu ekki leika skynsamlega eins og öflug lið á borð við Austur-Þýskaland og Spán fengu að kynnast á mótinu. 

Tomas Svensson á landsliðsæfingu ásamt Alexander Petersson í byrjun þessa …
Tomas Svensson á landsliðsæfingu ásamt Alexander Petersson í byrjun þessa mánaðar. mbl.is/Rax

Álitsgjafar nefndu nokkur atriði í aðdraganda leiksins sem þyrftu að vera í lagi hjá Svíum til að þeir gætu átt einhverja möguleika. Markvörðurinn Mats Olsson þyrfti að eiga stórleik í markinu en líkurnar á slíku voru nú yfirleitt meiri en minni. Ásamt honum skipaði Tomas okkar Svensson markvarðateymi Svía í mótinu en Svensson var markvarðaþjálfari íslenska landsliðsins á EM í Svíþjóð sem lýkur í Stokkhólmi í dag.

Fleiri atriði þurftu að ganga upp hjá Svíum í leiknum. Skjóta þurfti niðri á Lavrov og spila sóknir í lengri kantinum til að gera Sovétmennina óþolinmóða. Staffan Olsson yrði að ógna verulega í sókninni því hann var svo gott sem eini sem náði upp í hæð Sovétmanna en í varnarmúrnum voru menn yfir tvo metra eins og Xepkin, Vjacheslav Atavin og Júrí Nesterov. Með öguðum sóknarleik væri hægt að koma í veg fyrir hraðaupphlaup Sovétmanna en risarnir í vörn þeirra voru svo fljótir fram að eftir var tekið og í horninu var hinn reyndi Aleksandr Karshakevitsj. Einn fárra sem „lifði af“ breytingarnar á liðinu eftir HM 1986. 

Vörnin þróuð í áratug

Svíar höfðu stefnt markvisst að því að komast í fremstu röð og höfðu þróað varnarleik sinn í áratug eða svo. Vörn liðsins var mjög sterk og átti stóran þátt í sigrinum á HM. Þar voru miklir refir sem íslenska landsliðið fékk því miður oft að kenna á: Staffan Olsson, Per Carlén, Magnus Wislander og Ola Lindgren. Sá síðastnefndi tók svo upp á því að eiga stórleik í sókninni með mörkum utan af velli í síðari hálfleik og létti það mjög á sókninni hjá Svíum. Carlén lék vel á línunni þótt hann hafi meiðst á mótinu og Wislander stjórnaði leiknum frábærlega á miðjunni. Þegar sænska vörnin stóð sína vakt á þessum árum létu Mats Olsson og Svensson ekki sitt eftir liggja og oft skilaði það rakettunni Erik Hajas hraðaupphlaupum en Sovétmönnum tókst þó að halda nokkuð vel aftur af honum í úrslitaleiknum. 

Sovétmenn höfðu frumkvæðið í fyrri hálfleik og voru yfir 12:11 að honum loknum. Þar sem sjálfstraustið var gott í sænska liðinu töldu álitsgjafar að þeir gætu landað sigri ef þeim tækist að hanga inni í leiknum þar til korter eða tíu mínútur voru eftir. Sú varð raunin en Svíar komust yfir í fyrsta skipti í leiknum á 39. mínútu, 15:14. Smám saman gengu Svíar á lagið en Sovétmenn brotnuðu á sama tíma. Þegar leið á leikinn kom í ljós að leikgleðin og sigurviljinn var meiri hjá Svíum. Þeirra leikur var nánast fullkomlega útfærður og þegar stemningin tók yfir á lokakaflanum juku þeir forskotið og unnu 27:23. 

Markvörðurinn Andrei Lavrov lokar hér á sjónvarpsmanninn Einar Örn Jónsson …
Markvörðurinn Andrei Lavrov lokar hér á sjónvarpsmanninn Einar Örn Jónsson í landsleik. mbl.is/Mikael Forslund

Þótt sænska vörnin hafi verið öflug, og Olsson góður fyrir aftan þá, dugði það ekki til að halda aftur af örvhentu skyttunni Tutsjkin. Skoraði hann 11 mörk og var auk þess valinn besti leikmaður mótsins. Wislander fékk mest hrós í sænska liðinu en þar skilaði liðsheildin sigrinum.

Þess má geta að á varamannabekk liðanna voru mjög snjallir leikmenn. Þar sat fyrirliði Svía, Björn Jilsen, sem kominn var af léttasta skeiði í boltanum. En hann var vítaskytta liðsins eins og áður. Fórst það vel úr hendi sem var ekki sjálfsagt gegn Lavrov. Á bekknum sat einnig galdarmaðurinn Magnus Andersson. Hann kom lítið við sögu í leiknum en átti eftir að springa út síðar. Svipað má segja um Mikhail Jakimovitsj hjá Sovétmönnum og á bekknum hjá þeim var einnig Valeri Gopin. 

Sjaldgæft að fagna öllum mörkum

Sálræni þátturinn og hugarfarið var einn af þeim þáttum sem skiluðu Svíum óvæntum heimsmeistaratitli fyrir þrjátíu árum. Leikmenn liðsins höfðu gott sjálfstraust og fór það ekki framhjá þeim sem fylgdust með. Liðið hafði vakið athygli fyrir að fagna nánast hverju einasta marki. Slíkt gera svo gott sem öll lið í dag en á þeim tíma þegar alvarlegir menn frá austurhluta Evrópu voru áberandi í handboltanum þótti þetta sérstakt. Litu margir á þetta sem mont og egóisma hjá Svíum.

Ávinningurinn af þessu uppátæki var tvíþættur. Annars vegar skapa fagnarlætin betri stemningu í eigin herbúðum, eins og öll lið áttuðu sig á síðar, en um leið fór þetta í taugarnar á mörgum andstæðingum þeirra. Handboltamenn fögnuðu ekki stökum mörkum nema seint í leikjum þegar úrslitin voru að ráðast. 

Umfjöllun Morgunblaðsins um úrslitaleikinn 13. mars 1990.
Umfjöllun Morgunblaðsins um úrslitaleikinn 13. mars 1990.

„Við höfðum gaman að því að spila. Við vissum að við gætum sigrað en þyrftum að hafa fyrir því og ég held að leikgleðin hafi ráðið úrslitum. Munurinn var kannski sá að okkur langaði til að verða heimsmeistarar en Sovétmenn aðeins að skila sinni vinnu,“ sagði Carlén við Morgunblaðið 13. mars 1990. 

„Ég trúi þessu ekki. Það er ótrúlegt að þetta hafi gerst,“ sagði Mats Olsson þegar Logi Bergmann Eiðsson, blaðamaður Morgunblaðsins, sveif á hann á flugvellinum í Prag. Bengt Johannsson, þjálfari Svía, sagði við Steinþór Guðbjartsson, hinn blaðamann Morgunblaðsins á mótinu, að Sovétríkin væru besta liðið. „Af hverjum 10 leikjum við Sovétmenn gætum við sigrað í þremur og þetta var einn þeirra.“

Unnu mörg stórmót til viðbótar

Í framhaldinu breyttist ásýnd stórmótanna í handboltanum. Þeim var jú fjölgað en þegar stórliðin Sovétríkin og Júgóslavía splundruðust þá urðu til fleiri sterk lið en ekki eins ógnarsterk. Var þetta síðasta stórmótið hjá Sovétríkjunum í handboltanum. Á Ólympíuleikunum 1992 léku leikmenn liðsins sem Samveldi sjálfstæðra ríkja og var ólympíufáninn brúkaður fyrir liðið. Samveldið varð ólympíumeistari og þá létu Jakimovitsj og Gopin meira að sér kveða. Þegar Rússland mætti með eigið lið eftir fall Sovétríkjanna varð Rússland heimsmeistari 1993 og 1997. Liðið varð Ólympíumeistari árið 2000 og Evrópumeistari 1996.

Á þessar öld hefur hins vegar hallað verulega undan fæti hjá karlaliði Rússlands en kvennaliðið hefur lengi verið í fremstu röð. 

Svíar unnu hins vegar vel úr sínu og sigurinn á HM 1990 var ekki stakur sigur á stórmóti. Velgengnin hófst á HM fyrir þrjátíu árum og þá brutu þeir mikinn ís. Sigur liðsins hjálpaði íþróttinni mjög í Svíþjóð en þar átti hún undir högg að sækja í samkeppni við aðrar íþróttagreinar eins og kemur fram í viðtölum frá 1990.  

Sænska liðið þótti valda vonbrigðum á HM á heimavelli 1993 en margir muna eftir hinum níðþröngu „sundbúningum“ sem liðið lék í. Svíar náðu ekki heldur að sýna sínar bestu hliðar á HM á Íslandi 1995. EM var hins vegar vettvangur þar sem Svíarnir léku við hvern sinn fingur. Þeir unnu EM 1994, 1998, 2000 og 2002 á heimavelli. Liðið varð aftur heimsmeistari árið 1999. Svensson, Hajas, Wislander, Lindgren, Staffan Olsson og fleiri héldu lengi áfram og Magnus Andersson fékk stærra hlutverk eins og Pierre Thorson sem lék úrslitaleikinn 1990 í hægra horninu.

Stundum var talið að sænsku kempurnar héldu sér gangandi í þeirri von um að verða ólympíumeistarar einn daginn. Það hafðist ekki en liðið fékk silfurverðlaunin á þrennum leikum í röð: 1992, 1996 og 2000. Svíar sem höfðu verið svo snjallir í íþróttasálfræðinni féllu ef til vill á því sálræna prófi. 

Staffan Olsson og Bengt Johansson þjálfari fagna sigri á EM …
Staffan Olsson og Bengt Johansson þjálfari fagna sigri á EM f2000 eða fyrir tuttugu árum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka