Tímabilið búið hjá Gísla

Gísli Þorgeir Kristjánsson er á leið í aðgerð og leikur …
Gísli Þorgeir Kristjánsson er á leið í aðgerð og leikur ekki meira með Magdeburg á tímabilinu. AFP

Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikmaður Magdeburg í þýsku 1. deildinni í handknattleik, spilar ekki meira með liðinu á þessari leiktíð vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik gegn Þýskalandsmeisturum Flensburg í deildinni um helgina en þetta staðfesti Kristján Arason, faðir Gísla, í samtali við mbl.is í kvöld.

Gísli meiddist á vinstri öxl í leiknum, þeirri sömu og hann meiddist á í nóvember á síðasta ári, sem gerði það að verkum að hann missti af EM í Austurríki, Noregi og Svíþjóð með íslenska karlalandsliðinu.

„Það var tekin ákvörðun um það að Gísli myndi ekki fara í aðgerð þegar hann meiðist í nóvember á síðasta ári. Hann lendir svo í þessum meiðslum núna eftir mjög ljótt brot og það hefur verið tekin ákvörðun um það að hann muni fara í aðgerð. Hann mun því ekki spila meira með Magdeburg á þessari leiktíð,“ sagði Kristján í samtali við mbl.is.

Gísli skrifaði undir samning við Magdeburg 23. janúar eftir að Kiel rifti samningi sínum við leikstjórnandann fyrr í janúar en Gísli verður áfram í herbúðum Magdeburg á næstu leiktíð.

„Hann mun þurfa sinn tíma til þess að jafna sig eins og gengur. Hann verður svo klár í slaginn og mætir af krafti inn í næsta keppnistímabil með Magdeburg sem hefst næsta haust,“ bætti Kristján Arason við í samtali við mbl.is en samningur Gísla við Magdeburg gildir út tímabilið 2021.

Gísli Þorgeir Kristjánsson skrifaði undir samning við Magdeburg í lok …
Gísli Þorgeir Kristjánsson skrifaði undir samning við Magdeburg í lok janúar. Ljósmynd/@SCMagdeburg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert