Alfreð Gíslason verður næsti þjálfari þýska karlalandsliðsins í handknattleik en forseti þýska handknattleikssambandsins greindi frá þessu í dag.
Á stjórnarfundi var tekin sú ákvörðun að slíta samstarfinu við landsliðsþjálfarann Christian Prokop og mun Alfreð taka við þýska liðinu í mars.
Hans fyrsti landsleikur verður gegn Hollandi sem annar Íslendingur stýrir, Erlingur Richardsson. Leikurinn fer fram hinn 13. mars en þýska liðið mun koma saman í fyrsta skipti undir stjórn Alfreðs hinn 9. mars.
Alfreð hefur verið laus allra mála eftir að hann hætti störfum hjá þýska stórliðinu THW Kiel að eigin ósk síðasta sumar. Samkvæmt upplýsingum frá þýska sambandinu verður hann formlega kynntur til leiks sem landsliðsþjálfari Þjóðverja á morgun.
Samningur Alfreðs gildir fram yfir lokakeppni EM 2022 sem haldin verður í Ungverjalandi og Slóvakíu.
Fyrsta stóra verkefni Alfreðs með þýska liðið verður undankeppni Ólympíuleikanna sem fram fer í apríl. Þar verða Þjóðverjar í snúnum riðli með Slóveníu, Svíþjóð og Alsír en tvö lið komast á leikana í Japan í sumar.
Andreas Michelmann, forseti þýska sambandsins, segir það hafa verið erfiða ákvörðun að segja Prokop upp störfum en frammistaðan á EM í janúar hafi gefið vísbendingar um að skipta þyrfti um mann í brúnni ef þýska liðinu eigi að takast að ná markmiðum sínum. Alfreð Gíslason sé rétti maðurinn til að stýra liðinu í ljósi reynslu sinnar og velgengni.
Alfreð hefur áður gegnt starfi landsliðsþjálfara því hann stýrði íslenska landsliðinu á árunum 2006-2008. Stýrði Íslandi á HM 2007 og EM 2008.
Hann er ekki fyrsti Íslendingurinn sem stýrir þýska landsliðinu en það gerði Dagur Sigurðsson á árunum 2014-2017. Undir stjórn Dags urðu Þjóðverjar Evrópumeistarar árið 2016 og unnu til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í Ríó 2016.
Í meðfylgjandi frétt sem skrifuð var þegar Alfreð var tekinn inn í Heiðurshöll ÍSÍ í desember má sjá gott yfirlit yfir feril Alfreðs: