Haukur og Alexander sáu um KA-menn

Einar Sverrisson sækir að marki KA í kvöld.
Einar Sverrisson sækir að marki KA í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA og Selfoss spiluðu kl. 17 í dag í Olísdeild karla í handbolta. Leikurinn fór fram í KA-heimilinu á Akureyri. Lokatölur urðu 31:26 og Selfyssingar vel að sigrinum komnir.

Selfyssingar mættu örlítið laskaðir til leiks. Nokkra fastamenn vantaði í liðið og fyrir aðeins fjórum dögum steinlágu Selfyssingar fyrir Stjörnunni í Coca Cola bikarnum. KA var á höttunum eftir fyrstu stigum ársins og ætluðu að selja sig dýrt eftir tvö slæm töp á árinu.

Leikurinn byrjaði með heljar ati og miklum látum þar sem lítið var um varnarleik en mikið um glæsilegar vörslur. Alexander Hrafnkelsson var virkilega flottur í marki Selfyssinga og varði hann reglulega frá KA-mönnum sem komin voru í dauðafæri. Svavar Ingi Sigmundsson gerði hið sama í KA-markinu. Hann varði ótrúlega í nokkur skipti. Þeir félagar voru kominn í tíu vörslur í hálfleik og báðir búnir að verja víti.

Annars var leikurinn jafn allan fyrri hálfleikinn. Hvort lið náði einu sinni tveggja marka forskoti en það leit svo út fyrir jafna stöðu í hálfleik. Selfoss fékk aukakast í lokin og úr því kasti skoraði Einar Sverrisson. Staðan var því 14:13 fyrir Selfoss í hálfleik.

Selfoss nýtti sér snilli Hauks Þrastarsonar í byrjun seinni hálfleiks og byggði fljótlega upp fimm marka forskot. Haukur var þá einn um að skora fyrir gestina og  dugði það svona ljómandi vel. Selfoss komst í 22:17 og svo 24:18. Selfoss sigldi svo rólega í höfn með sigurinn og gat sent alla kjúklingana sína á vettvang undir lokin.

Í raun má segja að Alexander Hrafnkelsson og Haukur Þrastarson hafi séð um að afgreiða KA-menn. Haukur skoraði 11 mörk og Alexander varði 20 bolta. Ungir og reynslulitlir menn skiluðu allir sínu hjá Selfyssingum og var gaman að sjá Tryggva Þórisson spila vörnina eins og herforingi.

KA var nokkuð frá sínu besta í leiknum. Daníel Griffin var helst með lífsmarki og svo Svavar Ingi Sigmundsson markvörður. Þeir koðnuðu niður í seinni hálfleik og þá má segja að hver einasti leikmaður KA hafi spilað vel undir getu. Það vantaði kraft, trú og áræðni í þá gulklæddu og sóknarkerfin gengu ekki neitt og enduðu oft í töpuðum boltum og hraðaupphlaupsmarki fyrir Selfoss.

KA 26:31 Selfoss opna loka
60. mín. Andri Snær Stefánsson (KA) skorar úr víti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert