Fram vann óvæntan 28:24-sigur á ÍR í Olísdeild karla í handbolta í Austurbergi í Breiðholti í kvöld. Staðan í hálfleik var 16:13, ÍR í vil, en Framarar voru sterkari í seinni hálfleik.
Fyrri hálfleikurinn var kaflaskiptur, en Fram náði mest þriggja marka forskoti, 12:9. Þá tóku ÍR-ingar leikhlé og við það gjörbreyttist leikur liðsins.
ÍR skoraði sjö af síðustu átta mörkum hálfleiksins og var staðan 16:13, ÍR í vil, er liðin gengu til búningsherbergja. Sturla Ásgeirsson skoraði fjögur mörk í hálfleiknum, flest úr hraðaupphlaupum, þrátt fyrir að hafa verið elstur á vellinum.
Það dró af Sturlu í seinni hálfleik, sem og öllum hjá ÍR. Markvarslan var nánast engin og sóknarleikurinn klaufalegur. Framarar nýttu sér það vel, spiluðu skynsamlega og unnu verðskuldaðan sigur.
Þorgrímur Smári Ólafsson fór á kostum á lokakaflanum og átti stóran þátt í að Fram landaði sigrinum. Skoraði hann sex mörk. Sturla skoraði sjö fyrir ÍR.
Með sigrinum fóru Framarar upp í tólf stig og upp fyrir KA í níunda sætið. Fram er aðeins þremur stigum frá Stjörnunni í baráttu um sæti í úrslitakeppninni. ÍR er í fimmta sæti með 22 stig.