Patrekur ráðinn þjálfari Stjörnunnar

Patrekur Jóhannesson.
Patrekur Jóhannesson. mbl.is/Hari

Stjarnan í Garðabæ tilkynnti á facebooksíðu sinni rétt í þessu að Patrekur Jóhannesson hefði verið ráðinn þjálfari karlaliðs félagsins í handknattleik frá og með næsta sumri.

Patreki var á dögunum sagt upp störfum hjá Skjern í Danmörku en hann hefur nú samið við uppeldisfélag sitt til þriggja ára og tekur við af Rúnari Sigtryggssyni að þessu tímabili loknu.'

„Ég hlakka til að taka á ný við þjálfarastarfi hjá Stjörnunni,“ segir Patrekur á facebooksíðu Stjörnunnar. „Félagið býr að fornri frægð í handbolta, ekki síst kvennaliðið, og hér eru mörg sóknarfæri. Ég lít á Stjörnuna eins og sofandi risa sem getur heldur betur látið að sér kveða. Liðið er nú þegar vel skipað undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar. Miklu máli skiptir að hlúa vel að unglingastarfinu þannig að börn í Garðabæ geti stundað íþróttina sér til ánægju og meistaraflokkar félagsins notið þess þegar fram í sækir. Ég er svo heppinn að hafa stýrt tveimur liðum til sigurs á Íslandsmóti, Haukum og Selfossi. Á báðum stöðum var öflugt unglingastarf forsenda góðs árangurs.“

Patrekur, sem er 47 ára gamall, var einn besti handboltamaður landsins á sínum tíma og lék með Stjörnunni, KA, Essen og Bidasoa. Hann lék 241 landsleik fyrir Íslands hönd og skoraði í þeim 634 mörk, og lék m.a. með íslenska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Barcelona árið 1992.

Þjálfaraferilinn hóf hann hjá Stjörnunni árið 2008 og þjálfaði síðan Emsdetten í Þýskalandi, Val, Hauka, Selfoss og Skjern í Danmörku, ásamt því að vera landsliðsþjálfari Austurríkis um átta ára skeið, frá 2011 til 2019. Selfyssingar urðu Íslandsmeistarar undir hans stjórn síðasta vor og hann vann áður meistaratitilinn með Haukum árið 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka