Handknattleiksþjálfarinn Einar Jónsson átti afar góðu gengi að fagna þegar færeysku bikarhelginni lauk í gær. Einar gerði karla- og kvennalið H71 að bikarmeisturum.
Einar stýrði karla- og kvennaliðum H71 til sigurs í úrslitaleikjum. Karlaliðið vann 23:18-sigur á Kyndli. Bikartitillinn var sá fjórði í sögu félagsins. Í kvennaflokki hafði H71 betur gegn VÍF, 23:22, og vann sinn fyrsta bikartitil kvenna í sögunni.
Báðum liðum gengur vel í deildinni í Færeyjum. Karlaliðið er á toppnum með 22 stig, sex stigum á undan næstu liðum. Kvennaliðið er í þriðja sæti, tveimur stigum frá toppnum.
Einar er uppalinn Framari og hefur hér heima stýrt karlaliðum Fram, Stjörnunnar og Gróttu. Hann stýrði lengi kvennaliði Fram og var aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins um tíma.