Rakel tekur við þjálfun Stjörnunnar

Sigurjón Björnsson og Rakel Dögg Bragadóttir við undirskriftina.
Sigurjón Björnsson og Rakel Dögg Bragadóttir við undirskriftina. Ljósmynd/Stjarnan

Rakel Dögg Bragadóttir, fyrrverandi landsliðskona í handknattleik, hefur verið ráðin aðalþjálfari kvennaliðs Stjörnunnar frá og með næsta keppnistímabili og hún tekur því við liðinu í sumar af Sebastian Alexanderssyni.

Rakel Dögg hefur verið aðstoðarþjálfari liðsins og sjálf spilað tíu leiki af átján í deildinni í vetur. Sigurjón Björnsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari.

Rakel Dögg Bragadóttir í leik með Stjörnunni.
Rakel Dögg Bragadóttir í leik með Stjörnunni. mbl.is/Árni Sæberg

Tilkynning frá handknattleiksdeild Stjörnunnar er svohljóðandi:

Mfl. kvenna í Stjörnunni hefur samið við tvo þjálfara sem munu taka að sér þjálfun liðsins á næsta tímabili. Rakel Dögg Bragadóttir, sem er núverandi aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna verður aðalþjálfari liðsins á næsta tímabili.

Rakel þarf vart að kynna fyrir handboltaáhugafólki. Hún á yfir 100 A-landsleiki sem leikmaður og hefur unnið alla titla hér á landi, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Rakel er reyndur þjálfari. Hún var einn af eigendum Handboltaakademíunar til margra ára, hefur verið aðstoðarþjálfari mfl. Stjörnunnar í nokkur skipti og hefur þjálfað yngri landslið HSÍ til margra ára.

Sigurjón Björnsson mun verða aðstoðarþjálfari liðsins. Sigurjón er með B.sc.-gráðu í íþróttafræðum og meistaragráðu í lýðheilsu og kennslu. Hann var íslandsmeistari með HK 2012 og Bikarmeistari með ÍR sem leikmaður.

Sigurjón er einnig reyndur þjálfari. Hann þjálfaði meistaraflokk kvenna hjá ÍR 2015-2017. Aðstoðarþjálfari hjá meistaraflokki kvenna hjá Fjölni á síðasta tímabili og er núverandi aðalþjálfari hjá kvennaliði Fjölnis.

Rakel Dögg og Sigurjón þekkjast vel á hliðarlínunni og hafa þjálfað saman yngri landslið Íslands undanfarin 3 ár. Fyrst U-15 og svo U-17 ára landslið Íslands þar sem þau náðu frábærum árangri síðastliðið sumar á EM U-17 á Ítalíu þar sem þau lentu í öðru sæti eftir vítakeppni í úrslitaleik.

Handknattleiksdeild Stjörnunnar er bæði spennt og lukkuleg fyrir komandi samstarf við Rakel og Sigurjón. Þau munu taka við mjög góðu búi af Sebastian Alexanderssyni sem hefur unnið frábært starf undanfarin 2 ár með meistaraflokk Stjörnunnar. Sebastian og Rakel Dögg munu klára núverandi tímabil af heilindum og stefnan sett hátt fyrir endasprettinn í Olísdeild kvenna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert