Fram er bikarmeistari kvenna í handknattleik 2020 eftir 31:18-sigur á KA/Þór í úrslitaleik Coca Cola-bikarsins í Laugardalshöllinni í dag. Fram hefur þar með orðið bikarmeistari 16 sinnum alls og mikið oftar en næstu lið.
Framarar voru mikið sigurstranglegri fyrir leik og stóðu undir því. Liðið er nú búið að vinna 18 leiki í röð í deild og bikar og hafa fjórir sigrar komið gegn KA/Þór sem var að spila sinn fyrsta úrslitaleik. Framkonur voru hinsvegar ólíkar sjálfum sér í upphafi leiks, gerðust sekar um nokkur mistök í sóknarleik sínum og var staðan 2:2 á 6. mínútu.
Við það tók Safamýrarliðið við sér og skoraði 15 af næstu 17 mörkum leiksins. Staðan var 17:4 í hálfleik en Steinunn Björnsdóttir var með sex mörk fyrir hlé. KA/Þór spilaði vörn mjög framarlega og nýttu Framarar sér það til að koma snöggum leikmönnum sínum inn á línuna þar sem mörg mörk þeirra komu.
Hinumegin gekk liði KA/Þórs afleitlega í sókn. Þær gátu illa skotið yfir risavaxna varnarmenn Fram og reyndu trekk í trekk að kreista boltann inn á línuna, yfirleitt án árangurs. Úrslitin voru löngu ráðin í síðari hálfleik og leikurinn nokkuð eftir því. KA/Þór gekk betur eftir því sem Framliðið slakaði á klónni. Norðankonum tókst að skora fimm mörk í röð um miðbik síðari hálfleiks til að minnka muninn í 24:12. Framarar sigldu þó sigrinum þægilega í höfn en Steinunn var að lokum markahæst með níu mörk.