Valur varð bikarmeistari drengja og stúlkna í þriðja flokki í Coca Cola-bikarnum í handknattleik í Laugardalshöllinni í gærkvöldi.
Valsstúlkur unnu KA/Þór í fyrri úrslitaleiknum, 33:20. Elín Rósa Magnúsdóttir var valin maður leiksins en hún skoraði sjö mörk, rétt eins og Ásdís Þóra Magnúsdóttir. Telma Lísa Elmarsdóttir var markahæst í liði KA/Þór með átta mörk.
Strákalið Vals hafði svo betur gegn HK í síðari leiknum, 29:25. Valsliðið hafði forystuna frá upphafi en HK-ingar voru aldrei langt undan í spennandi leik. Benedikt Gunnar Óskarsson, leikmaður Vals, var valinn maður leiksins en hann skoraði 13 mörk í leiknum. Sigurður Jefferson Guaarino var markahæstur HK-inga með sjö mörk.