HSÍ frestar öllum leikjum

Það verður ekkert leikinn handbolti á Íslandi á næstunni.
Það verður ekkert leikinn handbolti á Íslandi á næstunni. mbl.is/Íris

Stjórn HSÍ ákvað í dag að öllum leikjum innan sambandsins yrði frestað frá og með deginum í dag vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Er frestunin ótímabundin og því óljóst hvenær næstu leikir fara fram. 

HSÍ fundaði ásamt öðrum sérsamböndum og ÍSÍ í dag og var ákvörðunin tekin á fundinum.

Fram og Stjarnan áttu að mætast í Olísdeild kvenna í kvöld og gat Fram tryggt sér deildarmeistaratitilinn með sigri. Hefur þeim leik hins vegar verið frestað, eins og öðrum leikjum innan HSÍ. 

Yfirlýsing HSÍ í heild sinni: 

Eftir tilkynningu frá heilbrigðisráðherra í morgun um takmarkanir á samkomum vegna Covid-19-vírussins (samkomubanns) hefur stjórn HSÍ tekið þá ákvörðun að fresta öllum leikjum í mótum á vegum HSÍ ótímabundið frá og með kl. 17.00 föstudaginn 13. mars.

HSÍ ásamt öðrum sérsamböndum fundaði með ÍSÍ í dag og var þessi ákvörðun tekin á stjórnarfundi í beinu framhaldi.

HSÍ mun fylgjast með framgangi samkomubanns stjórnvalda og bregðast við því eftir því sem þurfa þykir.

Stjórn HSÍ vill beina því til forsvarsmanna og þjálfara félaganna að fara í einu og öllu eftir tilmælum stjórnvalda þegar kemur að starfi félaganna meðan á samkomubanninu stendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert