Handknattleikskonan Anna Úrsúla Guðmundsdóttir hefur lagt skóna á hilluna, 34 ára gömul. Anna lék síðast með Val þegar hún varð þrefaldur meistari með liðinu síðasta vetur.
Hefur hún leikið með Val, Gróttu og Stjörnunni hér á landi og orðið Íslandsmeistari sjö sinnum; fimm sinnum með Val og tvisvar með Gróttu. Þá lék hún yfir 100 landsleiki á sínum tíma og skoraði 202 mörk.
„Jæja- síðustu handboltaskórnir mínir komnir í ruslið...tók mig ekki nema tæpt ár að sætta mig við það að ég hefði spilað minn síðasta leik, svolítið spes en kannski ekki skrýtið þar sem handbolti hefur jú verið stór hluti af mínu lífi og lítið annað komist að. Þetta hefur verið yndisleg lífsreynsla og mig langaði bara að þakka öllum þeim sem að komu að henni,“ skrifaði Anna á Facebook í dag.