Árni Stefán Guðjónsson hefur hætt störfum sem þjálfari meistaraflokks kvenna í handknattleik en þetta kemur fram á Facebook-síðu Hauka. Árni Stefán tók við liðinu síðasta sumar en þrír leikmenn hafa yfirgefið félagið undanfarna daga.
Guðrún Erla Bjarnadóttir gekk til liðs við Fram og þá samdi markvörðurinn Saga Sif Gísladóttir við Val. Þá gekk Alexandra Líf Arnarsdóttir til liðs við HK í síðustu viku en liðið var í fimmta sæti úrvalsdeildarinnar þegar ákveðið var að aflýsa tímabilinu vegna kórónuveirufaraldsins.
Haukar fóru alla leið í undanúrslit bikarkeppninnar, Coca Cola-bikarsins þar sem liðið féll úr leik eftir tap gegn KA/Þór. Haukar hafa sjö sinnum orðið Íslandsmeistara í handbolta kvenna, síðast árið 2005.