Markakóngur í þriðja sinn

Bjarki Már Elísson skoraði 216 mörk í þýsku 1. deildinni …
Bjarki Már Elísson skoraði 216 mörk í þýsku 1. deildinni í vetur. Ljósmynd/Lemgo

Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður Íslands í handknattleik og leikmaður Lemgo í Þýskalandi, er markakóngur þýsku 1. deildarinnar eftir að ákveðið var að flauta deildina af í dag vegna kórónuveirufaraldsins sem nú geisar. Bjarki skoraði 216 mörk fyrir Lemgo í 27 leikjum og fjórtán mörkum meira en Hans Óttar Lindberg, leikmaður Füsche Berlín.

Þetta er í þriðja sinn á ferlinum sem Bjarki Már verður markakóngur en hann varð markakóngur úrvalsdeildarinnar með HK árið 2013 og þá varð hann markahæsti leikmaður þýsku B-deildarinnar árið 2015 með Eisenach. Þá er hann þriðji Íslendingurinn til þess að verða markakóngur þýsku 1. deildarinnar.

Sigurður Sveinsson varð markahæsti leikmaður deildarinnar tímabilið 1984-85 en þá skoraði hann 191 mark fyrir Lemgo. Guðjón Valur Sigurðsson lék svo afrek Sigurðar eftir, tímabilið 2005-06 með Gummersbach, en þá skoraði hann 264 mörk. Bjarki og félagar enduðu í tíunda sæti deildarinnar á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert