Kiel er Þýskalandsmeistari í handknattleik árið 2020 í fyrsta sinn í fimm ár eftir að forráðamenn þýsku 1. deildarinnar ákváðu að flauta tímabilið af vegna kórónuveirufaraldsins sem nú herjar á heimsbyggðina.
Kiel var með tveggja stiga forskot á Flensburg á toppi deildarinnar þegar átta umferðir voru eftir af tímabilinu. Þá hefur þýsku B-deildinni einnig verið aflýst.
Þetta er í 21. sinn sem Kiel verður Þýskalandsmeistari en Kiel og Flensburg verða fulltrúar Þýskalands í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Þá munu Magdeburg, Hannover-Burgdorf og Rhein-Neckar Löwen leika í Evrópudeildinni, nýrri Evrópukeppni EHF sem áður hét EHF-bikarinn, á næstu leiktíð.
Ekkert lið fellur úr deildinni og tvö lið, Coburg og Essen koma upp úr B-deildinni og því munu tuttugu lið leika í 1. deildinni á næsta ári. Þjóðverjar stefna á að klára bikarkeppnina en ekki hefur ennþá verið gefin út dagsetning fyrir úrslitahelgina sjálfa. Það verður hins vegar í fyrsta lagi í september þar sem fjöldasamkomur eru bannaðar í Þýskalandi út ágúst.