Thea Imani Sturludóttir, landsliðskona í handknattleik, leikur með danska úrvalsdeildarliðinu Aarhus frá og með næsta tímabili. Thea, sem er 23 ára, kemur til félagsins frá Oppsal í Noregi, þar sem hún lék eitt tímabil í efstu deild. „Ég heyrði fyrst í þeim fyrir áramót. Þjálfarinn hefur fylgst með mér í gegnum ferilinn og vissi af mér. Hann ákvað að heyra í mér og snemma á þessu ári heimsótti ég félagið og leist vel á. Ég skrifaði undir samninginn fyrir nokkru,“ sagði Thea í samtali við Morgunblaðið.
Thea er spennt fyrir komandi tímum hjá nýju félagi, í nýju landi og nýrri deild. Segir hún aðstæður í Aarhus vera býsna góðar og þá fékk hún meðmæli frá Birnu Berg Haraldsdóttur, liðsfélaga sínum í landsliðinu. „Það var allt saman mjög faglegt þarna. Þjálfarinn er reynslumikill og ég fann að liðsandinn var góður. Umgjörðin er góð og mjög góð aðstæða fyrir styrktaræfingar. Aarhus er líka flott borg og margir Íslendingar búa þar. Birna hefur spilað þarna líka og hún sagði að þetta væri flott félag og gott fyrir mig að taka þetta skref,“ sagði Thea um sitt nýja félag.
„Akkúrat núna er ég að hugsa um að bæta minn leik í handbolta og verða betri og betri. Fyrst þegar þú kemur inn í nýtt land og nýja deild þarftu aðeins að venjast, en ég er spennt að sjá hvað ég get lært á nýjum stað og hjá nýjum þjálfara,“ sagði Thea, en Heine Eriksen hefur þjálfað Aarhus frá árinu 2017. Þá hefur hann einnig þjálfað yngri landslið Danmerkur.
Thea, sem lék með Fylki hér heima, segir erfitt að bera norsku og dönsku deildina saman, áður en hún hefur spilað í þeirri dönsku. Reiknar hún samt sem áður með að sú danska sé aðeins sterkari. „Það er erfitt að segja þegar ég hef ekki spilað sjálf í deildunum. Í norsku deildinni eru þrjú efstu liðin í sérflokki, en þjálfarinn segir að það séu fleiri sterkari lið í Danmörku og deildin sé jafnari. Þetta eru svipað sterkar deildir, en danska deildin kannski aðeins sterkari,“ sagði Thea, sem hefur skorað 54 mörk í 40 A-landsleikjum.
Viðtalið í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.