Stórbrotinn ferill í aldarfjórðung

Guðjón Valur Sigurðsson með uppskeruna í Peking í ágúst 2008.
Guðjón Valur Sigurðsson með uppskeruna í Peking í ágúst 2008. mbl.is/Brynjar Gauti

Guðjón Valur Sigurðsson átti magnaðan feril á handboltavellinum og varð meistari í fjórum löndum: Þýskalandi, Danmörku, Spáni og Frakklandi. 

Hann varð raunar landsmeistari sex ár í röð frá 2012 - 2017 með AG, Kiel, Barcelona, Rhein Neckar Löwen.  

Guðjón varð einnig bikarmeistari í Þýskalandi, í Danmörku og á Spáni. 

Guðjón er fæddur 8. ágúst 1979 en kom mjög ungur inn í meistaraflokk hjá uppeldisfélagi sínu Gróttu eða árið 1995. Hann lék með Gróttu, Gróttu/KR, KA, Essen, Gum­mers­bach, Kiel, AG Kaupmannahöfn, Rhein-Neckar Löwen, Barcelona og París St. Germain. Lauk því ferlinum í sem franskur meistari en ferillinn í atvinnumennsku hófst hjá Essen árið 2001. 

Segja má að Guðjón Valur Sigurðsson hafi slegið í gegn …
Segja má að Guðjón Valur Sigurðsson hafi slegið í gegn hérna heima þegar hann lék með KA frá 1998 - 2001. mbl.is/Kristján Kristjánsson

Guðjón varð Evrópumeistari tvívegis. Hann vann EHF-bikarinn með Essen árið 2005 og Meistaradeild Evrópu með Barcelona árið 2015. Guðjón Valur hefur raunar leikið í Meistaradeildinni frá árinu 2006. 

Guðjón Valur er markahæsti landsliðsmaður heims í handknattleik frá upphafi. Í janúar 2018 fór hann fram úr Peter Kovacs sem skoraði 1.797 mörk fyr­ir Ung­verja­land á ár­un­um 1973 til 1995. Guðjón lék 365 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði 1.875 mörk. Lék hann sinn fyrsta A-landsleik gegn Ítal­íu á alþjóðlegu móti í Hollandi 15. des­em­ber 1999. 

Guðjón Valur Sigurðsson í leik gegn Slóveníu á sínu fyrsta …
Guðjón Valur Sigurðsson í leik gegn Slóveníu á sínu fyrsta stórmóti með landsliðinu í Króatíu árið 2000. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Fyrsta stórmótið sem Guðjón fór á með íslenska landsliðinu var EM í Króatíu í janúar árið 2000 og var því snöggur að sanna sig í landsliðinu. Stórmótin með landsliðinu, Ólympíuleikar, heimsmeistaramót og Evrópumót, urðu alls tuttugu og tvö.  

HM í Frakklandi 2001, EM í Svíþjóð 2002, HM í Portúgal 2003, EM í Slóven­íu 2004, ÓL í Aþenu 2004, HM í Tún­is 2005, EM í Sviss 2006, HM í Þýskalandi 2007, EM í Nor­egi 2008, ÓL í Pek­ing 2008, EM í Aust­ur­ríki 2010, HM í Svíþjóð 2011, EM í Serbíu 2012, ÓL í London 2012, HM á Spáni 2013, EM í Dan­mörku 2014, HM í Kat­ar 2015, EM í Póllandi 2016, HM í Frakklandi 2017, EM í Króa­tíu 2018 og EM í Svíþjóð 2020. 

Guðjón Valur Sigurðsson með verðlaunagripinn sem íþróttamaður ársins 2006.
Guðjón Valur Sigurðsson með verðlaunagripinn sem íþróttamaður ársins 2006. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

 

Guðjón Valur var í lykilhlutverki þegar Ísland vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og til bronsverðlauna á EM í Austurríki 2010. Hann var auk þess í íslenska liðinu sem lék um bronsverðlaun á EM 2002. 

Segja má að Guðjón Valur hafi sannað sig sem heimsklassaleikmaður árið 2006 þegar hann varð markakóngur þýsku 1. deildarinnar með Gummersbach með 264 mörk eða tæplega 8 mörk í leik. Var hann í framhaldinu kjörinn leikmaður ársins í Þýskalandi af þjálfurum og fyrirliðum liðanna. 

Um áramótin 2006 fékk Guðjón sæmdarheitið Íþróttamaður ársins hjá samtökum íþróttafréttamanna. 

Guðjón Valur Sigurðsson sigraði í Meistaradeild Evrópu með Barcelona.
Guðjón Valur Sigurðsson sigraði í Meistaradeild Evrópu með Barcelona. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

 

Með íslenska landsliðinu var hann valinn í úrvalslið mótsins á ÓL 2008 og EM 2012 og 2014. 

Guðjón varð markakóngur á HM í Þýskalandi 2007 með 66 mörk. 

Er hann markahæsti leikmaður í sögu lokakeppni EM með 288 mörk og sá næstmarkahæsti í lokakeppni HM frá upphafi með 294 mörk. 

Guðjón hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu ásamt félögum sínum í landsliðinu eftir Ólympíuleikana 2008. 

Ferill Guðjóns er óvenjulangur og -glæsilegur og má segja að hér sé stiklað á stóru. 

 

Guðjón Valur Sigurðsson á sínu síðasta stórmóti með íslenska landsliðinu …
Guðjón Valur Sigurðsson á sínu síðasta stórmóti með íslenska landsliðinu í janúar á þessu ári. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert