Gamla ljósmyndin: B-keppnin 1977

Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta mynd á laugardögum. 

Að þessu sinni er myndin tekin af einum þekktasta ljósmyndara þjóðarinnar, Ragnari Axelssyni eða RAX, og er tekin árið 1977 í Austurríki. 

Myndin er frá B-keppni heimsmeistaramóts karla í handknattleik sem fram fór í Austurríki árið 1977. Ísland þurfti að ná einu af fjórum efstu sætunum í keppninni til að öðlast keppnisrétt á HM 1978. Það tókst og hafnaði Ísland í 4. sæti. 

Á myndinni sést galdramaðurinn Geir Hallsteinsson skora eitt af 8 mörkum sínum gegn Hollendingum í keppninni í Austurríki með þrumuskoti, sem hafnaði efst í markhorninu. Hollensku landsliðsmennirnir koma engum vörnum við. Geir þóttist fyrst ætla að skjóta undirhandarskoti, sem skýrir tilburði varnarmanna, en breytti síðan um á síðustu stundu og sendi boltann yfir vörnina.

Þegar EM karla í handknattleik fór fram í Austurríki árið 2010 var B-keppnin í Austurríki 1977 rifjuð upp í aukablaði Morgunblaðsins fyrir EM. Þar ritaði blaðamaðurinn Sigtryggur Sigtryggsson grein en hann og Ragnar fylgdu íslenska liðinu eftir á mótinu árið 1977 fyrir Morgunblaðið. 

Áhugi á íslenska landsliðinu í handknattleik er greinilega engin nýlunda því Sigtryggur skrifaði meðal annars í upprifjun sinni í janúar 2010: „Rétt eins og í dag var gífurlegur áhugi á handknattleikslandsliðinu okkar hér heima og flestir fjölmiðlar sendu fulltrúa sína á mótið. Þá var farin hópferð á mótið og leiguvélin var stútfull.“

Sigtryggur starfar enn sem blaðamaður á Morgunblaðinu og Ragnar er nýhættur. 

Geir Hallsteinsson lék 118 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði í þeim ríflega 500 mörk. Geir var fékk sæmdarheitið Íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna árið 1968. Geir lék mest allan ferilinn með FH og þjálfaði liðið síðar en lék með Göppingen tímabilið 1973-1974. Var hann fyrsti Íslendingurinn sem gerðist atvinnumaður í handknattleik í Þýskalandi. 

Geir var útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ hinn 29. desember 2016. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert