Hefur KA hug á að ná samningum við Þór um að sjá um allan rekstur handbolta á Akureyri? Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru umræður um það komnar í gang, allavega á óformlegan hátt, en blaðið fékk í gær ábendingu um að KA hefði sent Þór erindi þess efnis. KA og Þór tefla fram sameiginlegu liði í úrvalsdeild kvenna í handbolta, en liðin leika hvort í sínu lagi í meistaraflokki karla.
KA hefur leikið í úrvalsdeild karla undanfarin tvö tímabil og þá tryggðu Þórsarar sér sæti í deildinni á síðustu leiktíð með sigri í 1. deildinni. Þórsarar voru með 28 stig eftir fimmtán umferðir þegar mótinu var aflýst vegna kórónuveirunnar en þeir höfðu þá þegar tryggt sér sæti í úrvalsdeildinni.
Þór og KA tefldu fram sameiginlegu karlaliði undir nafninu Akureyri handboltafélag frá 2006 til 2017 en höfðu fram að því leikið áratugum saman hvort í sínu lagi.
Reimar Helgason, framkvæmdastjóri Þórsara, vildi ekki tjá sig um það hvort Þórsurum hefði borist formlegt erindi frá KA um að taka yfir rekstur handknattleiksdeildarinnar.
„Ég get ekki tjáð mig um þetta mál að svo stöddu,“ sagði Reimar í samtali við Morgunblaðið. „Að sama skapi held ég að þetta sé spurning sem væri best að beina til forráðamanna KA. Hvað okkur varðar þá er mikill hugur í mönnum fyrir vetrinum og handknattleiksdeildinni en það er ekkert launungarmál heldur að rekstur íþróttafélaga í dag er erfiður og gildir þar einu hvort um er að ræða fótbolta, körfubolta eða handbolta,“ bætti Reimar við.
Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.