Valur mætir Holstebro frá Danmörku í 1. umferð Evrópudeildarinnar í handknattleik en þar spilar landsliðshornamaðurinn Óðinn Þór Ríkharðsson, sem skipti yfir til félagsins frá GOG í sumar.
Þrjátíu lið mæta til leiks í 1. umferðinni og var drátturinn með nokkuð óhefðbundnu sniði í morgun. Liðunum var raðað í styrkleikaflokka og svæði til að lækka ferðakostnað félaga og forðast óþarfa ferðalög á tímum kórónuveirunnar.
Valur var í neðri styrkleikaflokki á svæði tvö og gat mætt, ásamt Holstebro, Melsungen frá Þýskalandi, Arendal frá Noregi, Azoty-Pulawy frá Póllandi og Malmö frá Svíþjóð. Fyrstu leikirnir fara fram í lok ágúst.
Evrópudeildin er ný keppni sem kemur í staðinn fyrir EHF-bikarinn en þar er spilað í tveimur umferðum um sæti í riðlakeppni 24 liða. Eftir það tekur við hefðbundin útsláttarkeppni sextán liða.