Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Íslendingar unnu Spánverja eftirminnilega 36:30 í undanúrslitum í handknattleik karla á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008. Leikurinn fór fram hinn 22. ágúst í Beijing National Indoor Stadium eins og mannvirkið var kallað á ensku.
Með sigrinum hafði íslenska liðið tryggt sér verðlaun á Ólympíuleikunum, þau fjórðu sem Ísland fékk í sögunni. Í öll skiptin hefur Ísland unnið til verðlauna á leikum sem haldnir eru utan Evrópu. Auk þess hafði Ísland ekki leikið til úrslita á stórmóti í hópíþróttum.
Meðfylgjandi mynd, sem tekin var eftir að úrslitin lágu fyrir, fangar vel gleði íslensku landsliðsmannanna en á myndinni eru þeir Snorri Steinn Guðjónsson og Róbert Gunnarsson sem voru herbergisfélagar árum saman í landsliðinu. Snorri varð næstmarkahæsti leikmaður leikanna og var leikstjórnandi í úrvalsliði mótsins.
Myndina tók Brynjar Gauti Sveinsson sem myndaði á leikunum fyrir Morgunblaðið og mbl.is. Birtist hún framan á forsíðu íþróttablaðs Morgunblaðsins daginn eftir eða 23. ágúst 2008.