Stjarnan vann sannfærandi 29:21-sigur á FH í upphafsleik Olísdeildar kvenna í handbolta í TM-höllinni í Garðabæ í kvöld. FH byrjaði betur og komst í 4:1 en Stjarnan náði völdum á leiknum í kjölfarið og var sigurinn að lokum öruggur.
Hin 41 árs gamla Hanna Guðrún Stefánsdóttir fór á kostum fyrir Stjörnuna í fyrri hálfleik, skoraði níu mörk, og var stærsta ástæða þess að Stjarnan var með 15:11-forskot í hálfleik.
FH minnkaði muninn í þrjú mörk um miðbik seinni hálfleiks, 20:17, en þá tók Stjarnan leikhlé, skoraði næstu þrjú mörk, og var sigurinn ekki í hættu eftir það.
Britney Cots hjá FH var markahæst allra með ellefu mörk og Emilía Ósk Stinarsdóttir gerði fjögur. Hanna Guðrún skoraði ekki í seinni hálfleik en var þrátt fyrir það markahæst hjá Stjörnunni með níu mörk. Helena Rut Örvarsdóttir skoraði sex.
Eru einfaldlega fleiri vopn í búri Stjörnunnar á meðan FH treysti fyrst og fremst á Britney Cots í sókninni hjá sér. Hún spilaði afar vel, en þurfti meira frá liðsfélögum sínum. Hanna Guðrún, Helena Rut, Anna Karen Hansdóttir og Eva Björk Davíðsdóttir spiluðu allar vel fyrir Stjörnuna, sem reyndist of stór biti fyrir nýliða FH.