Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Meðfylgjandi mynd var tekin í Þýskalandi keppnistímabilið 1986-1987. Í leiknum mættust handknattleiksliðin Düsseldorf og Lemgo.
Á myndinni eru tveir Íslendingar: Sigurður Sveinsson sem lék með Lemgo sækir og til varnar hjá Düsseldorf er Páll Ólafsson. Miðað við svipinn á Páli virðist Sigurði hafa tekist af alþekktri útsjónarsemi að koma boltanum niður í hægri hornið.
Myndina tók Gunnlaugur Rögnvaldsson sem myndaði fyrir Morgunblaðið í mörg ár. Birtist hún í Morgunblaðinu 10. mars 1987.
Á þessum árum skrifaði Jóhann Ingi Gunnarsson pistla í Morgunblaðið um gang mála hjá Íslendingunum í Þýskalandi. Á níunda áratugnum stóðu margir Íslendingar sig vel í Þýskalandi bæði í handknattleiknum og knattspyrnunni. Ásamt Sigurði og Páli voru handboltamenn eins og Kristján Arason, Alfreð Gíslason, Atli Hilmarsson og Bjarni Guðmundsson í Þýskalandi á þessum árum.
Páll og Sigurður voru ekki einungis samherjar í landsliðinu heldur skutust þeir báðir fram á sjónarsviðið hjá Þrótti. Með þá innanborðs varð Þróttur bikarmeistari árið 1981 og komst árið eftir í undanúrslit í Evrópukeppni bikarhafa.
Í Þýskalandi lék Páll með Dankeren og Düsseldorf og var í toppbaráttu með Düsseldorf. Í Þýskalandi lék Sigurður með Nettelstedt, Lemgo og Dortmund og varð markakóngur þýsku 1. deildarinnar með Lemgo árið 1985.