Lengsta hlé landsliðsins í 56 ár

Gunnar Magnússon, Guðmundur Þórður Guðmundsson og Tomas Svensson fengu nægan …
Gunnar Magnússon, Guðmundur Þórður Guðmundsson og Tomas Svensson fengu nægan tíma til að velta hlutunum fyrir sér á árinu á milli þess sem landsliðið kom saman. mbl.is/Árni Sæberg

Fara þarf meira en hálfa öld aftur í tímann til að finna jafn langt hlé á milli landsleikja hjá A-landsliði karla í handknattleik og gerðist á kórónuveiruárinu 2020. 

Áður en kórónuveiran dreifði sér um heimsbyggðina lék íslenska landsliðið á EM í Svíþjóð í janúar og hafnaði þar í 11. sæti. Síðasti leikurinn á mótinu var tapleikurinn gegn Svíum en hann fór fram 22. janúar. Næsti landsleikur var svo ekki fyrr en Ísland vann Litháen í Laugardalshöllinni í undankeppni EM hinn 4. nóvember. 

Liðu því rúmlega átta mánuðir á milli landsleikja á þessu ári og fara þarf aftur til ársins 1964 til að finna jafn langt hlé á milli A-landsleikja hjá karlalandsliðinu í handknattleik. Ísland lék þá í febrúar 1964 en hafði ekki leikið síðan í febrúar 1963. 

Ólafur Stefánsson skoraði tólf mörk í seinni leiknum gegn Makedóníu …
Ólafur Stefánsson skoraði tólf mörk í seinni leiknum gegn Makedóníu í umspili fyrir HM í júní árið 2000 en Ísland vann 38:22. Næsti leikur Íslands var sjö mánuðum síðar. Númer 15 er Ragnar Óskarsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Árið 2001 voru sjö mánuðir á milli leikja hjá landsliðinu og þóttu það tíðindi eins og lesa mátti um í Morgunblaðinu. Þá hafði ekki verið jafn langt hlé frá árinu 1964. Árið 2000 lék Ísland umspilsleiki fyrir HM 2001 gegn Makedóníu í júní en næsti landsleikur var í byrjun janúar 2001 þegar liðið undirbjó sig fyrir HM í Frakklandi. 

Við þetta má bæta að kvennalandsliðið í handknattleik lék ekkert á árinu 2020 vegna heimsfaraldursins.

Aron Pálmarsson rífur sig lausan í leiknum gegn Litháen í …
Aron Pálmarsson rífur sig lausan í leiknum gegn Litháen í nóvember. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert