Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Alexander Petersson leikur þessa dagana með íslenska landsliðinu á HM í handknattleik í Egyptalandi en liðið mætir Alsír í dag.
Alexander varð fertugur síðasta sumar og er annar tveggja sem unnu til verðlauna á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 sem enn eru í landsliðinu. Er þá átt við leikmenn en hinn er Björgvin Páll Gústavsson. Guðmundur Guðmundsson er einnig landsliðsþjálfari eins og í Peking og aðstoðarþjálfarinn Gunnar Magnússon var einnig í þjálfarateyminu 2008.
Á meðfylgjandi mynd er Alexander í þann mun að skora gegn Túnis í sigurleik á Ólympíuleikunum í London sumarið 2012. Myndina tók Kjartan Þorbjörnsson eða Golli sem myndaði á leikunum fyrir Morgunblaðið og mbl.is.
Alexander er af lettnesku bergi brotinn en kom til Íslands árið 1998 og gekk til liðs við Gróttu/KR. Alexander fékk í framhaldinu íslenskan ríkisborgararétt árið 2003 og varð gjaldgengur með landsliðinu árið 2005. Síðan þá hefur hann stoltur leikið tæplega 200 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og verið mjög vinsæll hjá stuðningsmönnum íslenska landsliðsins.
Á leikunum í London má segja að Alexander hafi vökvað ræturnar og sýnt heimalandinu virðingu með því mæta í leikina með svitaband í fánalitum Lettlands. Bandið sést vel á þessari mynd Golla.
„Þetta er fyrir fjölskyldu mína í Lettlandi. Þau eru öll að fylgjast með og eru ánægð með þetta,“ sagði Alexander Petersson þegar mbl.is spurði hann út í svitabandið í London hinn 31. júlí 2012.
Alexander vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum 2008 og til bronsverðlauna á EM í Austurríki árið 2010. Hann hefur leikið sem atvinnumaður í Þýskalandi frá árinu 2003 og varð þýskur meistari 2016 og 2017 með Rhein-Neckar Löwen.
Alexander hlaut sæmdarheitið Íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna árið 2010 og var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2008.