Lærisveinar Dags grátlega nálægt sigri

Leikmenn japanska landsliðsins.
Leikmenn japanska landsliðsins. Ljósmynd/IHF

Dagur Sigurðsson stýrði japanska landsliðinu í annarri umferðinni á HM í handknattleik í Egyptalandi í dag er liðið var grátlega nálægt því að leggja Katar að velli. Leiknum lauk 31:29, Katar í vil eftir æsispennandi lokamínútur.

Dagur og Japanir komu gríðarlega á óvart í fyrsta leik er þeir gerðu jafntefli gegn Króatíu, 29:29, og þeir voru grátlega nálægt öðrum góðum úrslitum í dag. Liðin skiptust á að hafa forystuna í hálfleik og voru Japanir yfir í hálfleik með einu marki, 16:15. Leikmenn Katar færðu sig hins vegar upp á skaftið strax eftir hlé og virtust ætla gera út af við leikinn er þeir skoruðu fimm mörk í röð, komust í 20:16, og voru mest fimm mörkum yfir í stöðunni 26:21. Þá komu hins vegar sex japönsk mörk í röð er lærisveinar Dags tóku forystuna, 27:26.

Við tóku æsispennandi lokamínútur þar sem Katar hafði að lokum sigur, 31:29 og er liðið því með fjögur stig á toppi C-riðilsins eftir sigur gegn Angóla í fyrstu umferðinni. Japan er með eitt stig en Króatía og Angóla mætast síðar í dag.

Katar: Frankis Marzo 11, Ahmad Madadi 6, Allaedine Berrached 3, Mahmoud Hassaballa 3, Yassine Sami 3, Marwan Sassi 2, Ameen Zakkar 2, Houssem Romane 1.

Japan: Remi Anri Doi 7, Yuto Agarie 6, Tatsuki Yoshino 5, Jin Watanabe 3, Shuichi Yoshida 2, Hiroki Motoki 2, Kotaro Mizumachi 1, Kohei Narita 1, Rennosuke Tokuda 1, Kenya Kasahara 1.

Dagur Sigurðsson og hans menn í Japan hafa spilað af …
Dagur Sigurðsson og hans menn í Japan hafa spilað af krafti á HM. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert