Landsliðsmaðurinn Elvar Örn Jónsson er á förum frá danska úrvalsdeildarliðinu Skjern en félagið hefur nú staðfest brotthvarf íslenska handknattleiksmannsins.
Áður hefur komið fram að Elvar er á leiðinni til þýska liðsins Melsungen sem Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari þjálfar en nú hefur Skjern staðfest á heimasíðu sinni að Elvar er á förum. Mun hann yfirgefa félagið þegar samningur hans rennur út næsta sumar.
Elvar gekk til liðs við Skjern árið 2019 og er því á sínu öðru tímabili í Danmörku en hann hefur verið fastamaður í íslenska landsliðinu undanfarin tvö ár. Línumaðurinn Arnar Freyr Arnarsson er einnig samningsbundinn Melsungen en þýska liðið er í þrettánda sæti þýsku 1. deildarinnar með 13 stig.