Grafarvogsliðin Vængir Júpíters og Fjölnir mætast í 1. deild karla í handknattleik í Dalhúsum annað kvöld, þriðjudagskvöld, klukkan 20 og hafa gert leikinn að styrktarleik fyrir Píeta-samtökin.
Ástæða þess er sú að leikmaður sem tengist báðum liðum missti nýverið nákominn aðstandanda, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Fjölni.
Leikmenn, þjálfarar og stjórnarmenn munu leggja málefninu lið með þvi að styrkja sem um nemur einum aðgangsmiða á leik eða 1.500 kr. Þá munu Vængir Júpíters leggja söfnuninni lið með 50.000 kr. framlagi.
Þá skora félögin á fyrirtæki og einstaklinga að styrkja Píeta-samtökin með frjálsum framlögum á styrktarreikning Vængja Júpíters og Fjölnis, 0133-15-200680, kt. 631288-7589. Þá er hægt að kaupa miða á leikinn í gegnum Aur app í síma 664-5206 eða með því að hafa samband í tölvupósti á vaengirjupiters.handbolti@gmail.com
Leikurinn verður án áhorfenda, eins og aðrir leikir um þessar mundir, en hann verður sýndur í beinni útsendingu á Vængir Júpíters TV.
Leikmenn og starfsmenn beggja liða munu heiðra minningu allra sem fallið hafa fyrir eigin hendi með sorgarböndum og einnar mínútu þögn fyrir leik.