Valur tyllti sér á toppinn í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, þegar liðið fékk Þór frá Akureyri í heimsókn á Hlíðarenda í fimmtu umferð deildarinnar í kvöld.
Leiknum lauk með með þriggja marka sigri Vals, 30:27, en mikið jafnfræði var með liðunum allan leikinn.
Þórsarar náðu frumkvæðinu snemma leiks og náðu mest fjögurra marka forskoti í fyrri hálfleik, 10:6. Valsmönnum tókst að laga stöðuna og leiddu Þórsarar með einu marki í hálfleik, 15:14.
Þórsarar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og náðu þriggja marka forskoti í upphafi síðari hálfleiks, 18:15. Valsmenn voru fljótir að jafna metin og eftir það skiptust liðin á að skora.
Þegar fimm mínútur voru til leiksloka var staðan jöfn, 27:27. Valsmenn skoruðu hins vegar þrjú síðasta mörk leiksins eftir að Þórsarar höfðu tapað boltanum í tvígang í lokasóknum sínum og þar við sat.
Róbert Aron Hostert var markahæstur Valsmanna með átta mörk og Einar Baldvin Baldvinsson varði þrettán skot í markinu og var með 37% markvörslu.
Hjá Þórsurum var Valþór Atli Guðrúnarson markahæstur með sex mörk og Jovan Kukobat varði 10 skot í markinu.
Valsmenn fara með sigrinum upp í efsta sæti deildarinnar í 8 stig og eru jafnir ÍBV að stigum. Þórsarar eru í tíunda sætinu með 2 stig.