Fram sannfærandi gegn Val

Stefán Darri Þórsson reynir skot að marki Valsara.
Stefán Darri Þórsson reynir skot að marki Valsara. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fram vann 26:22-sigur á Val í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Framhúsinu í Safamýri í kvöld. Heimamenn tóku forystuna snemma leiks og gáfu hana aldrei frá sér til að vinna aðeins sinn annan sigur á tímabilinu.

Framarar áttu í miklum erfiðleikum með sóknarleik sinn í Vestmannaeyjum í síðustu umferð og skoruðu lítið í 19:17 tapi. Það kom því nokkuð á óvart að heimamenn byrjuðu með látum í Safamýrinni í kvöld og voru sex mörkum yfir eftir um stundarfjórðung, 9:3. Leikur Valsara batnaði þá til muna eftir afleita byrjun en Framarar voru með sanngjarna forystu í hálfleik, staðan 16:11.

Valsarar reyndu að færa sig upp á skaftið í síðari hálfleik en bæði lið áttu á köflum erfitt með að skora eftir hlé. Var þar helst að þakka markvörðunum, Lárus Helgi Ólafsson var drjúgur í marki Framara og Einar Baldvin Baldvinsson, sem kom í mark Valsara í síðari hálfleik, varði oft og tíðum vel. Munurinn var fjögur eða fimm mörk lengst af og komust Valsarar í raun ekki nær. Frömurum tókst að standa af sér síðasta áhlaupið er Lárus Helgi hélt áfram að verja og illa gekk í sóknarleik Valsara sem geta verið svekktir með sína frammistöðu í kvöld. Kristinn Hrannar Bjarkason var markahæstur heimamanna með sex mörk og þá varði Lárus 17 skot, þar af eitt víti.

Fram vann sinn annan sigur á tímabilinu í sex leikjum og er liðið nú með fimm stig en Valsarar eru með átta stig eftir að hafa tapað hér sínum öðrum leik í deildinni.

Fram 26:22 Valur opna loka
60. mín. Lárus Helgi Ólafsson (Fram) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert