Grótta vann sinn fyrsta leik í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, þegar liðið fékk ÍR í heimsókn í sjöttu umferð deildarinnar í Hertz-höllina á Seltjarnarnesi í kvöld.
Leiknum lauk með 29:21-sigri Gróttu sem leiddi með níu mörkum í hálfleik, 16:7.
Andri Þór Helgason var markahæstur Seltirninga með sjö mörk og þá átti Stefán Huldar Stefánsson stórleik í marki Gróttu, varði 19 skot og var með 48% markvörslu.
Hjá ÍR-ingum skoruðu þeir Ólafur Haukur Matthíasson, Sveinn Brynjar Agnarsson og Andri Heimir Friðriksson fjögur mörk hvor.
Grótta fer með sigrinum upp í áttunda sæti deildarinnar í 4 stig en ÍR er áfram í neðsta sæti deildarinnar án stiga.