KA og Afturelding mættust í kvöld í KA-heimilinu á Akureyri í Olísdeild karla í handbolta. Hvort lið var að spila fyrsta keppnisleik sinn eftir að Íslandsmótið fór aftur af stað. Fyrir leik var Afturelding eina taplausa lið deildarinnar með sjö stig en KA var með fjögur.
Fyrir leik var Afturelding eina taplausa lið deildarinnar. Mosfellingar höfðu unnið þrjá leiki og gert eitt jafntefli. KA var með fjögur stig eftir tvö jafntefli, sigur og tap. Allir leikirnir sem liðin höfðu spilað fram að Covid-hléinu höfðu verið æsispennandi og jafnir. Mátti því búast við háspennuleik, þrátt fyrir óvissu með spilform og gæði handboltans.
Mosfellingar hafa lent í skakkaföllum á síðustu mánuðum og misst stóra pósta í meiðsli. Þjálfari þeirra, Gunnar Magnússon, var fjarri góðu gamni í kvöld en hann er í sóttkví eftir að hafa verið með íslenska landsliðinu á HM í Egyptalandi. Mosfellingar hafa svo eflaust verið í hálfgerðu sjokki við komuna til Akureyrar. Tíu stiga frost og kafsnjór tók á móti þeim en í KA-heimilinu var hiti og þar voru líka læti.
Liðin buðu upp á hikandi og hægan sóknarleik í fyrri hálfleik og mörg leikkerfi fóru út um þúfur. Varnir beggja liða voru aftur á móti nokkuð öflugar og þar vörðu menn reglulega skot. Átta sinnum var staðan jöfn í fyrri hálfleik en annars var KA ávallt yfir. Staðan var 13:11 í hálfleik eftir að Blær Hinriksson hafði skorað fyrir Aftureldingu á síðustu sekúndunni úr hraðaupphlaupi. KA hefði getað farið inn í hálfleikinn með 14:10 forskot.
KA var algjörlega með leikinn í sínum höndum fram í seinni hálfleikinn. Heimamenn komust fimm mörkum yfir og leiddu svo 19:15 á 47. mínútu. Þá kom einn slakasti leikkafli handboltasögunnar á Akureyri þar sem KA-menn hreinlega gáfu Aftureldingu leikinn á silfurfati með fáránlegum brottrekstrum og hörmungar sóknarleik. Úlfar Monsi Þórðarson refsaði KA hvað eftir annað fyrir slen og kæruleysi. Hann setti fimm snögg mörk og á 54. mínútu var staðan orðin 19:22 fyrir Aftureldingu. Sjö-núll kafli á sjö mínútum takk fyrir. Gestirnir voru komnir á bragðið og þeir héldu sínu með grimmum varnarleik og skynsamlegum löngum sóknum. Lokatölur urðu 25:24 fyrir Aftureldingu.
Heilt yfir þá var varnarleikur beggja liða til fyrirmyndar og vörðu varnirnar ófá skotin. Nokkuð var um mistök í sóknarleiknum og voru KA-menn iðnir við kolann að kasta frá sér boltanum eða einfaldlega grípa hann ekki. Það var ekki vörn Aftureldingar sem vann af þeim boltann. Allir þrír útileikmenn KA voru slakir og Ólafur Gústafsson greip varla bolta sókn eftir sókn. Aðeins Árni Bragi Eyjólfsson komst vel frá sóknarleiknum. Lítið var að frétta af sóknarmönnum Aftureldingar en Monsi átti sína rispu ásamt Þorsteini Leó Gunnarssyni sem kom öflugur í lokafjórðung leiksins.
Afturelding er á toppnum í deildinni en KA er með sín fjögur stig eftir tvö eins marks töp í röð.