Hinn 18 ára Þorsteinn Leó Gunnarsson var mikill örlagavaldur á Akureyri í kvöld þegar KA og Afturelding mættust í Olís-deildinni í handbolta.
Piltur hafði hægt um sig lengi vel en þegar öll sund virtust lokuð hjá Aftureldingarmönnum og staðan var 19:15 fyrir KA þá fór Þorsteinn að fiska menn út af í kippum. KA-menn misstu alveg hausinn og áður en þeir vissu var staðan orðin 19:21 fyrir Aftureldingu. Á spennandi lokakafla var það Þorsteinn Leó sem sá um að skora mörkin og draga stigin í hús.
Þótti við hæfi að heyra í Þorsteini Leó eftir leik.
„Ég var frekar kaldur í fyrri hálfleiknum, bara eins og allt liðið en svo kom þetta í seinni hálfleiknum.“
Þetta var erfiður leikur fyrir ykkur. Þið voruð alltaf undir, mest fimm mörkum og virtust lengi vel ekkert ætla að fá út úr þessu. Hvað breyttist eiginlega á lokakaflanum?
„Ég veit það ekki. Það bara kviknaði allt í einu á okkur og sáum að það væri hægt að snúa þessu við og vinna. Við fengum nokkur auðveld mörk og það kveikti á okkur. Við höfum ekki tapað leik á tímabilinu og ætluðum ekki að fara að byrja á því í kvöld.“
Þú fékkst nokkra KA-menn út af eftir að þeir voru að brjóta á þér. Þú ert hávaxinn og þyngdarpunkturinn ekki langt niðri. Varstu ekki dálítið óstöðugur í þessum brotum?
„Þetta voru bara klaufaleg brot hjá þeim og verðskuldaðir brottrekstrar, svona yfirleitt.“
Svo varstu bara ískaldur í restina og settir þrjú mörk eftir langar sóknir.
„Það varð bara að negla á markið. Höndin var alltaf komin upp. Einhver varð að slútta sóknunum.“
Hvernig var svo að koma norður í allan þennan snjó?
„Maður er ekki vanur þessu. Það var -15°C þegar við vorum að koma í bæinn. Þessi kuldi er kannski ástæðan fyrir því að við vorum svona lengi í gang,“ sagði Þorsteinn léttur að lokum.