Þetta má ekki koma fyrir aftur

KA mátti sætta sig við naumt tap gegn Aftureldingu.
KA mátti sætta sig við naumt tap gegn Aftureldingu. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Daði Jónsson, fyrirliði KA í handbolta, var ekki nógu hress eftir að KA hafði tapað fyrir Aftureldingu í Olísdeildinni, 24:25, í kvöld. Það má segja að KA hafi gefið frá sér unninn leik með hræðilegum sjö mínútna kafla undir lok seinni hálfleiks. Þann kafla vann Afturelding 7:0 og KA náði ekki að brúa bilið í lokin. 

Ég er hræddur um að stuðningsmenn KA vilji fá útskýringar á því sem gerðist í leiknum. 

„Það kom þarna smá kafli þar sem leikur okkar bara hrundi. Að tapa 7:0 á sjö mínútum er ekki í boði. Allir sem fylgjast með handbolta gera sér grein fyrir því að það er algjört hrun. Við verðum bara að horfast í augu við það og laga okkar leik. Þetta má ekki koma fyrir aftur.“ 

Eins og leikurinn spilaðist þá var ekkert  sem benti til annars en að KA væri að fara að landa þægilegum sigri. Afturelding var í miklum erfiðleikum og fátt um fína drætti hjá þeim. Svo koma þrír brottrekstrar, gefins víti og gefins mark eftir miðju. Ofan í þetta voru lélegar sóknir og enginn agi. Það leit ut eins og leikmenn KA hefðu misst einbeitinguna. 

„Ég er algjörlega sammála því. Ég vil ekki lasta Aftureldingu en það vorum við sem gáfum leikinn frá okkur með okkar eigin klaufaskap. Það er hægt að laga sjálfan sig og það er það sem við verðum að gera.“ 

Liðin virtust fara varlega inn í leikinn þrátt fyrir mikla eftirvæntingu hjá leikmönnum.  

„Já, það var mikill haustbragur á þessu þótt það sé nú hávetur. Það var eins hjá báðum liðum en svo jókst hraðinn og ákafinn. Okkur leið vel, erum búnir að æfa vel og erum klárir í þessa leikjatörn. Mér fannst við fullkomlega undirbúnir en þessar sjö mínútur fara algjörlega með þann undirbúning. Það er jákvætt að vörnin var nokkuð öflug allan leikinn en nú þurfum við að bæta sóknarleikinn. Við erum með 16 tapaða bolta. Við höldum áfram fram á veginn, tökum það góða og reynum að bæta það slæma. Höndin fór mjög oft á loft í sóknum Aftureldingar, sem segir að við vorum að spila vörnina vel. Það er því leiðinlegt að hafa ekki náða að nýta það betur,“ sagði blóðugur höfðinginn Daði eftir leik. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert