Allt jafnt í háspennu í Kópavogi

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir átti afar góðan leik fyrir HK.
Jóhanna Margrét Sigurðardóttir átti afar góðan leik fyrir HK. mbl.is/Kristinn Magnússon

HK og Valur skildu jöfn, 32:32, í æsispennandi leik í Olísdeild kvenna í handbolta í kvöld. Berglind Þorsteinsdóttir skoraði jöfnunarmark HK þremur mínútum fyrir leikslok og tókst hvorugu liðinu að skora sigurmark á lokamínútunum.  

Valur var með undirtökin í fyrri hálfleik og náði fjögurra marka forskoti þegar hann var tæplega hálfnaður, 11:7. HK gafst ekki upp og jafnaði í 13:13 og voru hálfleikstölur 18:18. 

Valskonur komust í góða stöðu þegar seinni hálfleikur var hálfnaður, 27:24, en HK neitaði að gefast upp og tókst að lokum að jafna með góðum leik á lokakaflanum. 

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoraði sjö mörk fyrir HK og þær Díana Kristín Sigmarsdóttir og Sigríður Hauksdóttir bættu við sex mörkum hvor. Lovísa Thompson skoraði átta mörk fyrir Val og Thea Imani Sturludóttir bætti við fimm. 

Valur og KA/Þór eru efst og jöfn með níu stig en HK er í sjötta sæti með sex stig í afar jafnri deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert